Viktor Gísli Hallgrímsson ((Kristinn Steinn Traustason)
Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður íslenska landsliðsins og Barcelona verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu sem hefst 15. janúar næstkomandi. Viktor segist fara bjartsýnn inn í mótið og segir mikilvægt að byrja mótið vel og vinna riðilinn en Ísland er í riðli með Pólverjum, Ítalíu og Ungverjalandi. Tvö efstu liðin úr riðlinum fara í milliriðil keppninnar. ,,Það er gríðarlega mikilvægt og hjálpar okkur upp á framhaldið að vinna riðilinn, sérstaklega á EM sem er töluvert sterkara mót en HM. Dagurinn í dag er fyrst og fremst mikilvægastur og æfingaleikirnir og svo leikirnir í riðlinum. Eftir það verðum við að sjá,” sagði Viktor sem segir það nokkuð ljóst hvað þarf að gerast ætli Ísland að ná sínum markmiðum á mótinu. ,,Við þurfum að ná upp sömu spilamennsku og við náðum fyrir ári síðan fyrir utan þessar 30 mínútur gegn Króatíu. Ef við náum því aftur þá er ég mjög bjartsýnn. Við erum að fara spila við erfiðari lið og það verður enginn gefins leikur þar sem maður getur gert mistök en samt unnið. Við þurfum því að spila góðan handbolta allan tímann.” ,,Það væri gaman að ná tveimur góðum mótum í röð. Ég stóð mig vel í fyrra og markmiðið er að halda því áfram. Ég er með Roland með mér og það verður púlað í tvær vikur og hann mun koma mér í alvöru stand,” sagði Viktor Gísli aðspurður út í sín markmið fyrir mótið. Viðtalið í heild sinni við Viktor má sjá hér að neðan.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.