Hrannar Guðmundsson (Sævar Jónasson)
Rætt var um brottrekstur Arnars Daða Arnarssonar sem aðstoðarþjálfara Stjörnunnar í nýjasta þætti Handkastsins sem kom út í vikunni. Þar var hringt í Arnar Daða Arnarsson sem staddur er á Spáni og í kjölfarið ræddi Stymmi klippari þetta við gesti sína þá, Kristin Björgúlfsson og Ásgeir Gunarsson. Arnar Daði er enn á samningi við Stjörnuna sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar og yngri flokka þjálfari. Hinsvegar er ekki óskað eftir starfskröftum hans með meistaraflokki karla lengur. Stymmi klippari spurði Ásgeir hvort þetta væri einsdæmi í sögunni og hvort hann muni eftir einhverju aðstoðarþjálfara sem var sagt upp en ekki þjálfara. Og útskýrði til að mynda að ef Arnari Daða hafi verið alfarið sagt upp þá hefði komið sögur um það hvort hann hafi brotið eitthvað af sér en félagið vill halda honum áfram hjá félaginu. ,,Það er nú ekki lengra síðan en ár frá því að félagið komst í fréttirnar eftir að hafa sagt upp samningi við aðstoðarþjálfara knattspyrnuliðsins, Birni Berg Bryde. útfærslan á því var skrautleg líka. Auðvitað er þetta kómískt fyrir það fyrsta að þetta sé gert svona og að þetta sé mest lesna fréttin á Handkastinu og á Vísi og að við séum að ræða það að aðstoðarþjálfari Stjörnunnar var sagt upp,” sagði Ásgeir Gunnarsson áður en Stymmi klippari greip inní og benti á að hann hafi verið á ónefndnum veitingarstað á Þorláksmessu þar sem fjölskylda á næsta borði hafi verið að ræða þetta mál. ,,Gengi Stjörnunnar hefur ekki verið gott og eðlilegast hefði verið að segja upp öllu teyminu eða segja upp aðalþjálfaranum og halda aðstoðarþjálfararanum,” bætti Ásgeir við áður en Stymmi klippari hélt áfram að grípa inní og velti fyrir sér hvort Stjarnan hafi haft efni á því að segja Hrannari upp þar sem félagið væri með Patrek Jóhannesson ennþá á launum eftir að hafa rekið hann sem þjálfara kvennaliðsins fyrr í vetur. ,,Þetta hljómar allt mjög skrítið. Það er Hrannar sem ber ábyrgð á gengi karlaliðsins. Arnar Daði er vissulega hluti af því teymi ef Hrannar hefði verið rekinn þá hefði verið eðlilegt að Arnar Daði myndi hætta líka eða beðinn um að vera tekinn við liðinu. Þannig er þetta yfirleitt,” sagði Kristinn Björgúlfsson en Stymmi klippari var greinilega heitt í hamsi og hélt áfram að grípa inní. ,,Mér finnst mjög skrítið. Ef það á að fara reka aðstoðarþjálfar Hrannars sem Hrannar gekk mjög hart á eftir að fá til félagsins fyrir 15 mánuðum síðan, þá lemur hann í borðið og segir að þá rekið þið okkur báða. Ef þetta er alvöru teymi. Hrannar gekk mjög fast á eftir því að fá Arnar Daða sem aðstoðarþjálfara.” ,,Með fullri virðingu fyrir öllum aðstoðarþjálfurum í deildinni þá gæti ég ekki talið upp 6 af 12 aðstoðarþjálfurum í deildinni. Og það kæmi mér mjög á óvart ef allt í einu kæmi frétt um að aðstoðarþjálfara Selfoss væri sagt upp vegna gengi liðsins,” sagði Ásgeir. ,,Hrannar hlýtur að hafa viljað þetta. Það er mín tilfinning, hann hefur viljað losa sig við Arnar Daða út frá einhverjum ágreiningi eða mismunandi sýn á liðið," sagði Kristinn Björgúlfsson. Drengirnir ræddu þetta mál frekar í þættinum en Ásgeir Gunnarsson lauk umræðunni og benti á að miðað við símtalið við Arnar Daða fyrr í þættinum þá verður einhver súr stemningin inn í Heklu-höllinni næstu daga. Umræðuna um þetta athyglisverða mál má hlusta á í nýjasta þætti Handkastsins en umræðan er í upphafi þáttarins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.