Viktor Gísli Hallgrímsson ((Kristinn Steinn Traustason)
Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður íslenska landsliðsins og Barcelona verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu sem hefst 15. janúar næstkomandi. Viktor Gísli gekk í raðir spænska liðsins í sumar eftir eitt ár í Wisla Plock í Póllandi og þar áður en hjá Nantes í Frakklandi og GOG í Danmörku. Hann segir fyrstu mánuðina á Spáni hafa verið geggjaða. ,,Auðvitað er þetta aðeins öðruvísi og ákveðið verkefni að koma í nýtt land og nýjan hóp. Síðan gerir það aðeins erfiðara fyrir þegar markmaðurinn sem þú ert að spila með, er besti markvörður í heimi. Ég hef lært fullt af honum og held áfram að gera mína vinnu. Ég náði að gera vel þegar ég fékk að spila í spænsku deildinni og þarf að halda áfram að standa mig á æfingum og þá fæ ég fleiri tækifæri.” En hvernig er það að vera æfa með besta markverði í heimi, Emil Nielsen? ,,Það er mjög áhugavert. Það er gaman að sjá hvernig hann er að gera þetta á hverjum degi. Hann er herbergisfélagi minn í öllum ferðum og við erum því orðnir góðir félagar. Það eru fullt af hlutum sem maður getur lært og hann er líka frábær gæi og það er gaman að vinna með honum.” ,,Spilaformið á mér er gott. Emil veiktist í einhverjar tvær vikur og ég fékk að spila alla leiki síðan þá og átti nokkra góða leiki. Ég er í fínum málum,” sagði Viktor Gísli. Viðtalið í heild sinni við Viktor má sjá hér að neðan.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.