Hvíti Riddarinn (Raggi Óla)
Samkvæmt heimildum Handkastsins er Stjarnan á eftir leikmanni Hvíta Riddarans í Grill66-deild karla en Stjarnan leitar af styrkingu fyrir liðið eftir áramót. Er Stjarnan í viðræðum við Afturelding um að fá Aron Val Gunnlaugsson sem leikið hefur með Hvíta Riddaranum, venslaliði Aftureldingar í Grill66-deildinni í vetur. Í liði Hvíta Riddarans hefur hann skorað manna mest á tímabilinu eða 83 mörk talsins í 13 leikjum. Aron Valur hefur verið í leikmannahópi Aftureldingar í Olís-deild karla í fimm leikjum í vetur og skorað eitt mark. Er Stjarnan í leit að styrkingu á sínum leikmannahópi eftir að stjórn félagsins sagði samningi sínum við Ungverjann, Rea Barnabás upp eftir lokaleik Stjörnunnar gegn FH fyrir áramót og þá varð ljóst á Þorláksmessu að Ólafur Brim Stefánsson myndi yfirgefa félagið um áramótin og ganga í raðir félags á Ítalíu. Stjarnan er í 8.sæti Olís-deildarinnar með tíu stig en aðstoðarþjálfara Stjörnunnar, Arnari Daða Arnarssyni var tilkynnt fyrir jól að ekki yrði óskað eftir starfskröftum hans eftir áramót hjá liðinu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.