Guðjón Valur Sigurðsson (Grótta)
Grótta vekur athygli á því á samfélagsmiðlum sínum að Gróttumaðurinn, Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni hafi stýrt æfingu meistaraflokks karla liðs Gróttu í gærkvöldi. Guðjón Valur er í fríi á Íslandi um þessar mundir og mætti meðal annars á leik hjá 4.flokki karla í vikunni en Grótta greindi einnig frá því á samfélagsmiðlum sínum. ,,Gróttumaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson kom í heimsókn í Hertz-höllina í kvöld. Hann stýrði æfingu meistaraflokks karla og fengu allir þjálfarar yngri flokka félagsins að fylgjast með æfingunni. Eftir æfinguna spjallaði Guðjón Valur við þjálfarana í hátíðarsalnum þar sem hann fór yfir sína nálgun í þjálfun. Fjölmargar spurningar komu frá þjálfurum enda Guðjón Valur hafsjór af þekkingu. Við þökkum Guðjóni Val kærlega fyrir að gefa sér tíma til að koma á æskuslóðirnar og óskum honum góðs gengis í komandi verkefnum í Gummersbach," segir í færslu Gróttu. Guðjón Valur er á sínu sjötta ári með lið Gummersbach í Þýskalandi en hann tók við liðinu í þýsku B-deildinni. Liðið er um þessar mundir í 6.sæti í bestu deild heims í dag. Lið Gróttu er í 2.sæti Grill66-deildarinnar með jafn mörg stig og Víkingur en sjö leikir eru eftir af tímabilinu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.