Fór Selfoss of snemma aftur upp í Olís?
(Sigurður Ástgeirsson)

Selfyssingar eru mættir aftur í Olís. ((Sigurður Ástgeirsson)

Handkastið hefur verið leiðandi í umfjöllun um íslenskan handbolta síðustu ár og nú fer að styttast í að tímabilið hér heima fari af stað. Handkastið heldur úti tveimur hlaðvarpsþáttum í viku þegar tímabilið er í gangi auk þess að fjalla vel og ítarlega um allt sem tengist íslenska boltanum hér á vefnum.

Olís-deild karla hefst miðvikudaginn 3.september en þangað til ætlar Handkastið að hita upp fyrir deildina og fjalla um öll liðin í deildinni.

Í dag er 7 dagar þangað til Olís-deild karla hefst og því löngu orðið tímabært að kynna sér liðin í deildinni. Í dag förum við yfir lið Selfoss.

Selfyssingar komu öllum á óvart þegar þeir tryggðu sér sæti í Olís-deildinni í fyrra eftir sigur á Gróttu í umspili um laust sæti. Handkastið óttast að þetta sé 2-3 árum of snemma í ferlinu hjá þessum efnilega hóp. Veturinn í vetur gæti orðið langur fyrir Selfyssinga en hann mun svo sannarlega skila sér í reynslubankann. Ég óttast að það komi í hlut Selfyssinga að falla í Grill 66 deildina eftir tímabilið en það verður ekki langt í það að við sjáum gríðarlega sterkt Selfoss lið koma aftur upp meðal þeirra bestu því efniviðurinn er svo sannarlega til fyrir austan fjall.

Þjálfarinn:
Carlos Martin Santos tók við liði Selfoss fyrir síðustu leiktíð og fór upp með liðið á sínu fyrsta ári. Margir vilja meina að um kraftarverk hafi verið um að ræða hjá Spánverjanum sem hafði áður unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður á Ísafirði hjá Herði.

Breytingar:
Litlar breytingar hafa orðið á liði Selfoss frá síðustu leiktíð. Carlos Martin Santos þjálfari liðsins hefur reynt eftir bestu getu að styrkja liðið án árangurs en félagið hefur þó fengið línumanninn, Gunnar Kára heim á láni frá FH.

Lykilmenn:
Hannes Höskuldsson, Tryggvi Sigurberg Traustason, Gunnar Kári Bragason

Fylgist með:
Hákon Garri Gestsson hefur tekið miklum framförum á síðustu mánuðum og hlutverk hans hefur stækkað með hverjum mánuðinum. Hákon Garri hefur margt til brunns að bera og gæti hæglega bætt sinn leik mikið á komandi mánuðum.

Framtíðin:
Ragnar Hilmarsson bráðefnileg skytta sem er fæddur árið 2009 og var eini útileikmaðurinn í 2008 landsliðinu sem vann til gullverðlauna á Ólympíuhátíð æskunnar sem er fæddur árið 2009. Er að ganga uppúr 4.flokki og fær sennilega eitthvað hlutverk með Selfoss liðinu í vetur.

Við hverju má búast:
Þetta verður tímabil sem fer í reynslubankann. Gífurlega margir ungir og spennandi strákar að koma upp sem eru kannski mættir í Olís-deildina örlítið fyrr en áætlað var. Selfyssingar verða að flykkja sér bakvið strákana sína og hugsa þetta sem þriggja ára verkefni því ég tel að þessi vetur gæti orðið langur og erfiður fyrir þetta unga lið hjá Carlosi Martin. Handkastið setur stórt spurningarmerki við sumarið hjá liðinu en eini leikmaðurinn sem þeir sóttu var heimamaðurinn Gunnar Kári á láni frá FH.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top