Guðjón Guðmundsson - Andri Már Eggertsson (S2Sport)
Nýr þáttur af Handkastinu kom út í hádeginu í dag en þar var Guðjón Guðmundsson gestur í þættinum. Í þættinum var Guðjón spurður út í pistil sem birtist á Handbolta.is um helgina frá Sigmundi Ó. Steinarssyni sem bar yfirskriftina "Köllum gamla góða merkið aftur til leiks!" Þar á Sigmundur við gamla góða HSÍ merkið og er lítt hrifinn af nýja HSÍ merkinu sem var tilkynnt á kynningarfundi HSÍ fyrir deildarkeppninnar hér heima þar síðustu helgi. Guðjón Guðmundsson, eða Gaupi segist vera sammála Sigmundi að mörgu leiti. ,,Sigmundur er líklega einn af þessum mönnum sem á mestar upplýsingar um íslenska handknattleiksmenn og handbolta yfir höfuð. Hann hefur haldið úti gríðarlega öflugri tölfræði í áratugi og gerir enn. Ég las pistilinn frá Sigmundi og það vill svo til að ég er að hluta til sammála því sem hann segir," sagði Gaupi og hélt áfram. ,,Mér finnst þetta nýja merki ljótt. Ég skil hinsvegar handknattleikssambandið og pælinguna. Þeir eru að reyna breyta ímyndinni. En að taka gamla merkið algjörlega út og henda því fyrir báru, mér finnst það ekki nægilega gott því gamla merkið er fallegt og þetta er fast í minni fyrir okkur sem hafa verið hvað lengst í þessu." ,,Ég skil hinsvegar pælinguna hjá HSÍ. Þeir fá fyrirtæki til að breyta ásýndinni en það eitt og sér er ekki nægilega gott og ekki nægjanlegt til að þetta fari á eitthvað flug. Merkið nýja finnst mér forljótt og er sammála Sigmundi nánast að öllu leiti," sagði Gaupi að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.