Aron Breki Oddnýjarson (Fjölnir handbolti)
Aganefnd HSÍ hefur úrskurðað Aron Breka Oddnýjarson leikmann Fjölnis í Grill66-deildinni í fjögurra leikja bann eftir brot hans undir lok leiks Fjölnis og Selfoss 2 um síðustu helgi. Handkastið greindi frá brotinu fyrr í dag en hægt er að sjá atvikið hér. Þá úrskurðaði aganefnd HSÍ Þórð Tandra Ágústsson leikmann Þórs og Jón Ásgeir Eyjólfsson leikmann Stjörnunnar í eins leiks bann en þeir fengu báðir rauð spjöld í 1.umferð Olís-deildarinnar. Þar með er ljóst að Þórður Tandri verður ekki með Þór gegn Fram í 2.umferðinni og Jón Ásgeir missir af leik Stjörnunnar gegn ÍBV. Í úrskurði aganefndar HSÍ við atviki Arons Breka segir: Aron Breki Oddnýjarson leikmaður Fjölnis hlaut útilokun með skýrslu vegna sérstaklega hættulegrar aðgerðar í leik Selfoss 2 og Fjölnis í Grill 66 deild karla þann 06.09.2025. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 b). Með úrskurði aganefndar dags. 09.09.2025 var Fjölni gefið færi á að skila greinargerð áður en ákvörðun yrði tekin um viðurlög vegna málsins. Greinargerð barst frá Fjölni. Hefur aganefnd farið yfir sjónarmið félagsins. Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í fjögurra leikja bann. Aganefnd vekur athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 1. mgr. 11. sömu reglugerðar. Leikbannið tekur gildi 11.09.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.