Elvar Þór Ólafsson (Þorgils Garðar Gunnþórsson)
Þegar stórt er spurt er fátt um svör sagði einhver einhverntímann og það á ágætlega við þegar spurt er hvað sé um að vera í Grafarvoginum. Kvennalið Fjölnis endaði í næst neðsta sæti Grill66-deildarinnar í fyrra fyrir ofan venslalið Víkings, Berserki. Karlalið félagsins í knattspyrnu er fallið í C-deildina og kvennalið félagsins er einnig í C-deildinni í knattspyrnunni. Félagið dró kvennalið sitt úr úrvalsdeildinni í körfubolta fyrir stuttu og karlaliðið er í B-deildinni í körfuboltanum. Karlalið Fjölnis í handbolta féll úr Olís-deildinni á síðustu leiktíð sem nýliðar og leika í Grill66-deildinni á nýjan leik í ár. Liðið tapaði gegn B-liði Selfoss í 1.umferð deildarinnar um helgina og var rætt um stöðu Fjölnis í nýjasta þætti Handkastsins. ,,Það sem vakti mesta athygli okkar í Handkastinu um helgina var sigur Selfoss 2 á Fjölni í Grill66-deild karla 32-29. Selfoss 2 lék í 2.deildinni í fyrra á meðan Fjölnir lék í Olís-deildinni í fyrra undir stjórn Gunnars Steins Jónssonar og gerðu vel á köflum en héldu sér samt ekki uppi," sagði Arnar Daði Arnarsson þáttastjórnandi Handkastsins og hélt áfram. ,,Það voru heitar umræður í lokuðu spjalli okkar sérfræðinganna í Handkastinu um helgina um stöðu Fjölnis sem íþróttafélags og það áfall fyrir Fjölni að tapa gegn B-liði Selfoss í 1.umferð Grill66-deildarinnar." ,,Fótboltinn er fallinn í C-deildina karla megin, körfuboltinn er í 1.deildinni og kvennalið félagsins var fellt niður fyrir nokkrum árum í körfunni. Það var tvísýnt um þátttöku karlaliðsins í Olís-deildinni á síðustu leiktíð, kvennalið Fjölnis var næst neðst í Grill66-deildinni í fyrra. " ,,Það eru fjárhagserfiðleikar hjá félaginu heilt yfir en hvað er í gangi?" spurði Arnar Daði, gest þáttarins Guðjón Guðmundsson. ,,Vandi Fjölnis er fyrst og síðast innviðirnir. Þú nefndir peningastöðuna sem er ekki góð og það er ekki að hjálpa liði eins og Fjölni," sagði Gaupi og hélt áfram. ,,Mér finnst Fjölnir samt hafa verið að berjast í handboltanum undanfarin ár, allar götur síðan Arnar heitinn Gunnarsson var að þjálfa og gerði það gott. Kristján Gaukur var þá formaður handknattleiksdeildar." ,,Þeir hafa verið að berjast og hafa verið að reyna en þeim vantar fjármagn. Þeim vantar líka fólk og það er frekar skrítið að í svona stóru hverfi eins og í Grafarvogi að það sé ekki hægt að byggja upp alvöru handboltalið. En ef þú færð ekki nægilega góða iðkendur þá verður undirstaðan ekki nægilega góð og það brotnar undan henni." Guðjón segist hafa áhyggjur að því að fjarað gæti undan Fjölni á flestum vígstöðvum. ,,Það kann að vera að þeir nái að berjast í brestina og halda sér á floti en það verður erfitt hjá Fjölni í vetur í Grill66-deildinni," sagði Guðjón að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.