Höfðum trú á þessu allan tímann
Sævar Jónasson)

Sara Dögg Hjaltadóttir (Sævar Jónasson)

Sara Dögg Hjaltadóttir hélt uppteknum hætti í liði ÍR og var markahæst með níu mörk í fjögurra marka sigri liðsins á Haukum í 7.umferð Olís-deildar kvenna í dag.

Með sigrinum fór ÍR upp í 2.sæti deildarinnar og er nú með þremur stigum meira en Haukar sem eru í 5.sæti deildarinnar.

Sara Dögg var í viðtali hjá Árna Stefáni Guðjónssyni í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans strax eftir leik. Þar var hún beðin um fyrstu viðbrögð eftir leik.

,,Ég er ógeðslega ánægð. Þetta var frábær leikur og liðsheildin var mjög góð. Við vorum að ná að standa góða vörn. Ég er mjög ánægð.”

Þetta er annar sigur ÍR á Haukum á tímabilinu.

,,Þetta eru hörkuleikir og þetta voru líka hörkuleikir í fyrra en þá töpuðum við öllum leikjunum gegn þeim. En það er frábært að ná að sigra þær núna eftir töpin í fyrra.”

ÍR er í 2.sæti deildarinnar og komnar í 8-liða úrslit Powerade-bikarsins. Liðið hefur spilað afar vel í vetur og talað um spútnik lið. Sara var spurð að því hvort hún hefði trúað því að liðið gæti gert svona vel í upphafi móts.

,,Við höfðum trú á þessu allan tímann. Mér finnst mikil bæting frá því í fyrra og við vorum allar staðráðnar í því að stefna hátt í ár og það hefur heppnast frekar vel.”

Sara Dögg skoraði níu mörk í leiknum þrátt fyrir að Haukastelpur hafi varist henni hátt upp á vellinum.

,,Við vorum búnar að búast við þessu. Þær gerðu það sama í síðasta leik og í síðasta leik var það sama gert. Mér fannst þjálfarateymið koma með góða lausn í dag og allar hinar stelpurnar stóðu sig þvílíkt vel. Þetta var frábært,” sagði Sara Dögg að lokum.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top