Jonas Wille - Noregur (FRANCOIS LO PRESTI / AFP)
Úrslitin hjá norska landsliðinu á Golden League æfingamótinu sem fram fór í Þrándheimi um helgina hafa vakið upp spurningarmerki sérfræðinga í Noregi um stöðu þjálfarns, Jonas Wille með liðið og á hvaða vegferð liðið sé á, 73 dögum fyrir EM sem fram fer í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Jonas Wille landsliðsþjálfari Noregs þykir valtur í sessi og hafa sérfræðingar í Noregi keppst um að gagnrýna spilamennsku liðsins á Golden League. Norðmenn töpuðu með fimm mörkum gegn Danmörku 33-38 í fyrsta leik mótsins og töpuðu síðan lokaleiknum gegn Hollandi 33-37. Noregur vann Færeyja í millitíðinni með átta mörkum 34-26. Forráðamenn norska handknattleikssambandsins segja að ekki verði tekin ákvörðun um það hvort framlengt verði vil Wille fyrr en eftir að Evrópumótinu lýkur. Eftir töp gegn Brasilíu og Portúgal í riðlakeppni HM í janúar komst Noregur ekki í 8-liða úrslit keppninnar þrátt fyrir sigra gegn Svíþjóð, Spáni og Síle í miílliriðlinum. Þar sem Noregur eru gestgjafar á EM ásamt Danmörku og Svíþjóð fóru þeir ekki í undankeppni fyrir EM. Þess í stað spilaði liðið í EHF Euro Cup með þeim þjóðum ásamt Frökkum. Liðið tapaði öllum sex leikjum keppninnar sem fram fór árið 2024 og í mars og maí á þessu ári. ,,Vörnin er alltof veik. Við fáum á okkur mörk aftur og aftur. Hollenska liðið er miklu sterkara í vörn," sagði Bent Svele, sérfræðingur TV 2 Noregs eftir tapið gegn Hollandi á sunnudag. Harald Bredeli, fréttaskýrandi TV 2, hafði vonast til að leikurinn gæti gefið Noregi meira sjálfstraust. Noregur er í riðli með Úkraínu, Tékklandi og Frakklandi á heimavelli á EM í janúar.
,,Leikurinn hefði átt að gefa okkur trú á eigin getu. Í staðinn töpuðum við því litla sem við áttum," sagði Bredeli.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.