Viggó Kristjánsson - Ísland (Harry Langer / dpa Picture-Alliance via AFP)
Erlangen vann um helgina Eisenach í þýsku úrvalsdeildinni 24-23 þar sem landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson skoraði 12 mörk og gaf tvær stoðsendingar. Andri Már Rúnarsson liðsfélagi Viggós hjá Erlangen skoraði tvö mörk í leiknum. Erlangen er í 11.sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 10 stig en Eisenach er í sætinu fyrir neðan með 8 stig. Rætt var um Viggó Kristjánsson í nýjasta þætti Handkastsins. ,,Það hefur gengið ótrúlega vel hjá honum í Erlangen eftir að hann kom. Eins og hann sagði, að taka eitt skref til baka til að taka tvö skref áfram. Viggó ætti að vera einn heitasti bitinn á markaðnum ef einhverjum liðum vantar örvhenta skyttu. Hann hefur spilað með mörgum góðum liðum og staðið sig vel þar sem hann hefur spilað," sagði Kristinn Björgúlfsson meðal annars en hann var gestur í Handkastinu í síðasta þætti. Viggó gekk í raðir Erlangen í byrjun árs en hann var keyptur til félagsins frá Leipzig en þá var Erlangen í bullandi fallbaráttu. ,,Hann tekur sénsinn og fer í Erlangen til að halda þeim uppi og það gekk. Það gekk nánast á síðustu sekúndunni en það verður að taka það í reikninginn að hann var meiddur meira og minna og spilaði ekki mikið með þeim í fyrra. " ,,Hann hefur staðið sig ótrúlega vel á þessu tímabili. Ég þekki örlítið til inn í þjálfarateymi Erlangen og Viggó er í þvílíkum metum, ekki bara hjá þjálfarateyminu heldur hjá öllum í Erlangen," sagði Kristinn að lokum. Erlangen mætir Lemgo á sunnudaginn í 12.umferð þýsku úrvalsdeildarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.