Sigvaldi Björn Guðjónsson (Julien Kammerer / DPPI via AFP)
Íslendingaslagur fer fram í 7.umferð Meistaradeildar Evrópu í dag þegar ungverska stórliðið Veszprém tekur á móti norsku meisturunum í Kolstad. Sigvaldi Björn Guðjónsson hægri hornamaður Kolstad og íslenska landsliðsins verður hinsvegar ekki með Kolstad í leiknum í dag. Þetta staðfesti hann í samtali við Handkastið. Það má hinsvegar gera ráð fyrir því að Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigurjón Guðmundsson leikmenn Kolstad mæti Bjarka Má Elíssyni í leiknum í dag sem hefst klukkan 17:45. Sigvaldi þurfti að draga sig úr íslenska landsliðshópnum fyrr í þessum mánuði vegna meiðsla sem hann hlaut á æfingu landsliðsins. Þar tognaði hann á læri á æfingu liðsins í aðdraganda tveggja æfingaleikja gegn Þjóðverjum. Sigvaldi hefur ekkert spilað eftir þau meiðsli en í samtali við Handkastið sagði Sigvaldi að það væri allt á réttri leið. Þegar svona meiðsli séu þá séu engir sénsar teknir og því var ákveðið að hann myndi hvíla í leiknum í dag. ,,Ég er byrjaður að æfa með liðinu og hefði mögulega getað spilað eitthvað í dag en það var ákveðið að taka enga óþarfa áhættu. Við eigum deildarleik á sunnudaginn og við setjum stefnuna á að ég spili eitthvað í þeim leik," sagði Sigvaldi í samtali við Handkastið. Kolstad fær Sandnes í heimsókn í 11.umferð norsku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn en Kolstad er í 2.sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Elverum en eiga þó leik inni. Sandnes er í næsta neðsta sæti deildarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.