Rea Barnabas (Sævar Jónasson)
Ungverjinn, Rea Barnabás sem gekk í raðir Stjörnunnar í sumar á láni frá ungverska stórliðinu, Pick Szeged hefur leikið sinn síðasta leik fyrir félagið. Þetta tilkynnti Stjarnan á samfélagsmiðlum sínum rétt í þessu. ,,Stjarnan og Rea hafa komist að samkomulagi um að slíta samningi hans við félagið, bæði sem leikmaður og aðstoðarþjálfari yngri flokka. Rea gekk til liðs við Stjörnuna fyrir núverandi tímabil á láni frá ungverska stórliðinu Pick Szeged. Stjarnan þakka Barnabás Rea innilega fyrir framlag hans og óskar honum velfarnaðar í komandi verkefnum," segir í tilkynningunni frá Stjörnunni. Rea skoraði 14 mörk í 12 leikjum fyrir Stjörnuna á tímabilinu en hann meiddist á nára í leik gegn FH á tímabilinu og var frá vegna þeirra meiðsla í nokkrar vikur. Gengi Stjörnunnar hefur ekki verið eins og búist var við en liðið er með 10 stig í 8. sæti deildarinnar að loknum fimmtán leikjum, með jafn mörg stig og HK sem er í 9.sæti deildarinnar. Stjarnan hefur tapað fjórum síðustu leikjum sínum í deildinni og einungis unnið einn af síðustu níu leikjum sínum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.