Rúnar Sigtrygsson (Emily Diehl)
Rúnar Sigtryggsson tók fyrr í desember við liði HSG Wetzlar í þýsku úrvalsdeildinni en liðið er í fallsæti ásamt Leipzig með fimm stig að loknum sautján umferðum. Rúnar var einmitt þjálfari Leipzig þangað til í sumar. Handkastið sló á þráðinn til Þýskalands og heyrði í Rúnari Sigtryggssyni sem var í óðaönn í undirbúningi sínum fyrir annan leik sinn sem þjálfara Wetzlar en liðið mætir Eisenach á heimavelli í þýsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Hann segir að þetta hafi komið frekar brátt upp. ,,Þetta gekk hratt fyrir sig og þetta var tiltölulega auðveld ákvörðun,” sagði Rúnar en Wetzlar var fyrsta félagið úr þýsku úrvalsdeildinni sem hafði haft samband við hann eftir að hann hætti sem þjálfari Leipzig í sumar. ,,Ég hafði fengið fyrirspurnir frá öðrum löndum og meiri segja frá annarri heimsálfu. Það var í raun ekki nægilega spennandi á þeim tímapunkti. Þetta er áskorun og verkefni. Maður hefur þá allavegana eitthvað að gera og maður sér möguleika í því að halda þessu liði uppi í deildinni og það er áskorunin. Þetta snýst um að velja að taka áskoruninni eða ekki,” sagði Rúnar sem viðurkennir að staða liðsins í deildinni um þessar mundir sé slæm. Hann sér hinsvegar möguleika í stöðunni að snúa gengi liðsins við. ,,Ég hafði ekkert fylgst sérstaklega með þeim. Það hafði komið mér á óvart hversu botnfrostnir þeir voru líkt og Leipzig en sama tíma voru nýliðarnir í Bergischer og Minden að hala inn stigum á móti og skilur hin tvö liðin eftir í slæmri stöðu,” sagði Rúnar sem gerði samning út tímabilið 2026/2027. Sá samningur fellur hinsvegar úr gildi nái félagið ekki að bjarga sér frá falli og þá mun Rúnar og félagið setjast niður og endurskoða hlutina. Eins og fyrr segir er mikilvægur heimaleikur gegn Eisenach framundan en liðið á tvo leiki eftir fram að EM pásu. ,,Maður reynir að mjólka það sem hægt er að mjólka úr þessum tveimur leikjum sem eftir eru. Þetta byrjaði á því að ég stjórnaði einni æfingu og einum videofundi fyrir leikinn gegn Fuchse Berlín, sem er líklega ekki auðveldasta verkefnið. Ég notaði síðan þessa vikuna til að sjá hvar við stöndum og reyna gera allt sem við getum til að ná í sigur gegn Eisenach á sunnudaginn.” Rúnar missir að minnsta kosti fimm leikmenn í landsliðsverkefni í janúar en vonast til að geta nýtt þann mánuð til að koma sínu handbragði betur á liðið. ,,Ég er síðan með tvo leikmenn frá Egyptalandi sem gætu farið í landsliðsverkefni í janúar. Við munum síðan skoða það að styrkja liðið í janúar með einum til tveimur leikmönnum að minnsta kosti. Við erum bara með einn örvhentan leikmann eins og staðan er og það er alveg ljóst að við getum ekki klárað tímabilið með einn örvhentan leikmann. Það ungur örvhentur leikmaður hjá okkur sem er að glíma við meiðsli sem er óvíst hvenær hann getur komið til baka en það skýrist vonandi um áramótin hvort hann sé á batavegi eða þurfi lengri tíma,” sagði Rúnar Sigtryggson þjálfari HSG Wetzlar að lokum í samtali við Handkastið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.