Teitur Örn Einarsson (Andreas Gora / dpa Picture-Alliance via AFP)
Þrátt fyrir að Snorri Steinn Guðjónsson hafi valið fimm örvhenta leikmenn í 18 manna lokhóp sinn fyrir EM sem hefst um miðjan janúar þá ákvað Snorri að skilja hægri hornamanninn, Sigvalda Björn Guðjónsson leikmann Kolstad eftir heima. Snorri Steinn treystir á Óðin Þór Ríkharðsson og Teit Örn Einarsson í hægra horninu í janúar en Teitur Örn hefur spilað einhverjar sóknir með Gummersbach í hægra horninu í þýsku úrvalsdeildinni í vetur. Teitur Örn hefur skorað 18 mörk með Gummersbach í vetur og er með 60% skotnýtingu en á sama tíma hefur hann verið að spila bakvörðinn varnarlega fyrir Gummersbach eitthvað sem Snorri Steinn sér fyrir sér geta gert sama með íslenska landsliðinu. Skotnýting Teits með íslenska landsliðinu úr hægra horninu hefur ekki verið upp á marga fiska í undanförnum verkefnum. Á árinu 2025 var Teitur með skotnýtinguna 5/13 í leikjum sínum með íslenska landsliðinu en hann hefur ekki verið í landsliðshópi Snorra Steins í síðustu verkefnum. Snorri var spurður út í skotnýtingu Teits í undanförnum verkefnum og hvort Snorri hafi verið með hann á skotæfingum í undirbúningi ákvörðunnar? ,,Ég er ekki að þjálfa hann dagslega og hef því ekki verið með hann á skotæfingum, bara alls ekki. Hann spilar þessa stöðu með liði sínu Gummersbach og spilar þetta hlutverk sem ég er að leitast eftir. Ég fór líka yfir okkar tölfræði í landsliðinu og fannst fórnarkostnaðurinn ekki vera það stór að velja ekki hreinræktaðan hornamann.” ,,Ég hef verið að prófa mig áfram með að vera með hornamann í bakverði varnarlega. Ég er með leikmenn sérstaklega eins og Ómar Inga og Viggó sem þurfa að vera okkar lykilmenn sóknarlega og þá er leið til að hvíla þá og setja þá í hornið varnarlega. Það er hlutverkið sem sem Teitur er í, í Gummersbach og ég ætlaði að prófa Sigvalda í því hlutverki í síðasta verkefni,” sagði Snorri Steinn en Sigvaldi tognaði í upphafi verkefnsins og gat ekki leikið æfinaleikina tvo gegn Þjóðverjum. Teitur Örn var í kjölfarið kallaður inn í stað Sigvalda í það verkefniþ ,,Þegar upp er staðið reyndist það Sigvalda dýrt að við fengum ekki að sjá hann í bakverðinum og upplifa það. En ég skil alveg rökin fyrir því að sem hreinræktaður hornamaður þá hefur Sigvaldi vinninginn en alveg eins og í vinstra horninu þá spila einhverjir taktískir hlutir inn í ákvörðunina,” sagði Snorri Steinn að lokum. Viðtalið við Snorra þar sem hann útskýrir þá ákvörðun að hafa valið Teit Örn Einarsson framyfir Sigvalda má sjá hér að neðan.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.