Halldór Jóhann Sigfússon (Sævar Jónasson)
Á föstudagskvöldið tapaði HK í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins á heimavelli gegn Haukum nokkuð sannfærandi. Sama kvöld var tilkynnt um framlengingu samnings á þjálfara HK, Halldóri Jóhannsi Sigfússyni. Halldór Jóhann framlengdi samningi sínum við HK til tveggja ára eða út tímabilið 2027/2028. Halldór Jóhann er á sínu öðru tímabili með með liðið eftir að hafa tekið við liðinu af Sebastiani Alexanderssyni. Á sínu fyrsta ári fór Halldór Jóhann með HK í úrslitakeppnina í fyrsta skipti í tíu ár. Liðið tapaði 2-0 gegn FH í 8-liða úrslitunum í fyrra. Gengi liðsins hefur ekki verið eins og vonir stóðu til á þessu tímabili en liðið er í 9.sæti deildarinnar með 10 stig, jafn mörg stig og Stjarnan þegar sjö leikir eru eftir af tímabilinu. Ingvi Þór Sæmundsson íþróttafréttamaður á Vísi og mikill HK-ingur vekur athygli á framlengingu samnings Halldórs Jóhanns á samfélagsmiðlinu X. ,,6 töp í síðustu 7. En vegferðin heldur áfram," skrifar Ingvi Þór og birtir síðan mynd af tilkynningu HK um framleninguna. Handkastið les ekki öðruvísi úr þessu en þarna sé um að ræða smá sneið á ákvörðun stjórnarinnar enda gengi liðsins í síðustu leikjum ekki verið gott. HK hóf tímabilið á fjórum tapleikjum í röð en vann svo þrjá leiki í röð. Eftir það hafa einungis tveir sigurleikir komið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.