HANDBALL-WORLD-2023-ISL-POR (Johan Nilsson/ TT NEWS AGENCY / AFP
Björgvin Páll Gústavsson verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu sem framundan er í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Ísland leikur sína leiki í riðlakeppninni í Kristianstad í Svíþjóð líkt og á HM 2023. Stemningin í höllinni í Kristianstad er eitthvað sem allir þyrftu að upplifa. Höllin tekur einungis 4700 manns í sæti og á leikjum Íslands í riðlakeppninni á HM 2023 komust færri að en vildu. Sama verður upp á teningnum í riðlakeppninni á EM í janúar sem framundan er. ,,Þegar þú nefnir þessa höll þá fer ég bara að brosa,” sagði Björgvin Páll Gústavsson í viðtali við Handkastið á dögunum þegar hann var spurður út í höllina og stemninguna sem þar myndaðist árið 2023. ,,Það er einhver orka þarna og geðshræring. Þetta er þétt höll. Ég held að þjóðsöngurinn sé svona 12 sinnum hærri heldur en þegar hann er spilaður í Laugardalshöllinni. Fólk er komið til að skemmta sér. Við erum með marga áhorfendur með okkur og þeir áhorfendur sem eru ekki með okkur í liði eru einhvernvegin líka með okkur. Það eru forréttindi að fá að upplifa það að vera á heimavelli á útivelli. Það er ákveðin fegurð en á sama tíma mikilvægt að ná að beisla það. Mín ástríða lifir á þessum momentum,” sagði Björgvin Páll sem segir það forréttindi að spila fyrir framan íslenska stuðningsmenn víðsvegar um Evrópu. Talið er að um 3000 Íslendingar verði í stúkunni er Ísland leikur gegn Ítalíu í fyrsta leik Evrópumótsins, föstudaginn 16.janúar í Kristianstad. ,,Þegar kemur að íslensku geðveikinni þá gerist þetta ekki mikið stærra og skemmtilegra. Ég held að allir segi það sama sem hafa verið þarna og hafa upplifað þetta. Það er líka upplifun fyrir þá sem hafa ekki prófað þetta, þetta verður viðbrigði fyrir þá sem hafa ekki spilað þarna. Mér brá fyrst persónulega þegar þjóðsöngurinn var spilaður í þessari höll,” sagði Björgvin Páll.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.