Þorsteinn Leó Gunnarsson (Hugo Segato / DPPI via AFP)
 Þorsteinn Leó Gunnarsson lék allan seinni hálfleikinn í sigri íslenska landsliðsins gegn Þjóðverjum í Munchen í gær þar sem Ísland vann tveggja marka sigur 31-29. Þorsteinn Leó var til umræðu í nýjasta þætti Handkastsins þar sem Einar Jónsson þjálfari Fram var gestur. Framarar mættu Þorsteini Leó og félögum í Porto í Evrópudeildinni á dögunum og í aðdraganda leiksins leikgreindi Einar leiki Porto í portúgölsku deildinni. ,,Miðað við það sem ég sá úr þessari portúgölsku deild þá voru þeir við Sporting og síðan þrjá aðra leiki sem voru algjört gjaldþrot. Það er ekkert að marka þá leiki. Það er kannski vandamál við þessa stráka sem eru að spila í Portúgal. Það eru bara þrjú lið í þessari deild sem geta eitthvað. Hin liðin geta eiginlega ekkert.“ Þrír landsliðsmenn leika í portúgölsku deildinni. Þorsteinn Leó Gunnarsson, Stiven Tobar Valencia sem leikur með Benfica og Orri Freyr Þorkelsson sem leikur með Sporting. ,,Það sem ég sá var að Þorsteinn Leó var að spila þrist varnarlega gegn Sporting, sem er með frábært lið. Porto-Sporting var frábær leikur þar sem Sporting vann með einu marki á eigin heimavelli. Þorsteinn Leó var flottur í þeim leik, í hinum leikjunum voru hin liðin að spila einhverja 3-3 vörn og þá er erfitt að meta leikina. Hann virðist vera með stórt hlutverk í liðinu.” ,,Það hefur verið hans hlutverk í landsliðinu að koma inná og bara spila. Ég hef það stundum á tilfinningunni að sumir vonast til að hann hitti ekki á leikinn og geta þá sagt “ég sagði þetta” eins og menn vonist til að hann sé lélegur. Mér finnst Þorsteinn Leó eiga að vera með stórt hlutverk í íslenska landsliðinu,” sagði Einar Jónsson að lokum um Mosfellinginn hávaxna sem skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum í leiknum í gær.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.