Alec Smit (Odd ANDERSEN / AFP)
Segja mætti að danska stórliðið, Álaborg hafi dottið í lukkupottinn á dögunum eftir að hægri hornamaður liðsins, Patrick Wiesmach meiddist á öxl og verður frá keppni út tímabilið. Það er nú ekki meiðsli Patricks sem gerir það að verkum að félagið hafi dottið í lukkupottinn heldur sú staðreynd að félagið hefur náð að semja við hollenskan landsliðsmann sem bjó í Danmörku sem á að leysa Patrick af í hægra horni Álaborgar ásamt Kristiani Bjørnsen. Álaborg brást skjótt við þegar ljóst varð að Patrick Wiesmach yrði frá keppni út tímabilið vegna öxlarmeiðsla. Sex dögum eftir að Patrick gekk undir axlaraðgerð var Hollendingurinn Alec Smit kynntur sem nýr hægri hornamaður félagsins, eitthvað sem kom honum sjálfum á óvart. „Frá því í sumar hef ég haldið möguleikunum opnum. Ég bý í Viborg og hef fylgst með dönsku deildinni og hef haldið mér í formi í von um að eitthvað gæti gerst. En auðvitað bjóst ég ekki við að Álaborg myndi hringja, því það er félag með mjög hátt skrifað,“ sagði Hollendingurinn við TV2 Nord. Alec Smit, sem er 26 ára gamall, hefur mikla reynslu bæði sem leikmaður HSG Nordhorn-Lingen, Sønderjyske og nýlega Pfadi Winterthur í Sviss þar sem hann lék á síðasta tímabilið. „Ég er metnaðarfullur og ég vil spila, en ég er líka meðvitaður um styrkleika liðsins. Kristian Bjørnsen er einn sá besti hornamaður í heiminum í minni stöðu og Patrick Wiesmach ef út í það er farið. Ég vil leggja mitt af mörkum, bæði á vellinum, utan vallar og á æfingunum. Þegar ég fæ tækifæri vil ég sýna að ég eigi heima í þessu umhverfi,“ sagði hann. „Í upphafi var áætlunin að bíða og sjá áður en við myndum finna eftirmann Patricks, en stuttu síðar fengum við tækifæri til að skoða Alec nánar, sem hefur verið að æfa með okkur,“ sagði íþróttastjóri Álaborgar og fyrrum leikmaður félagsins, Martin Larsen. „Hann hefur sýnt sig að hann er augljós kostur fyrir okkur. Hann er í góðu formi og þekkir dönsku deildina nú þegar vel frá árunum sínum hjá SønderjyskE. Við erum ánægð með að hafa náð samkomulagi við hann út tímabilið.“ Alec Smit á að baki 62 landsleiki fyrir Holland. Frumraun hans gæti gæti verið í kvöld þegar Álaborg tekur á móti Íslendingaliðinu, Ribe-Esbjerg HH í Bambuni Herreliga.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.