Dika Mem - Barcelona (ANDREZEJ IWANCZUK / AFP)
Það vakti athygli á dögunum þegar rætt og ritað var um það að stærsta stjarnan í alþjóðlegum handbolta í dag, Dika Mem leikmaður Barcelona væri orðaður við Þýskalandsmeistara Fuchse Berlín frá sumrinu 2027. Rætt var um þessi mögulegu vistaskipti í nýjasta þætti Handkastsins þar sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari karlaliðs Víkings og fyrrum þjálfari bæði í Þýskalandi og Sviss var spurður að því hvort hann tefldi þetta vera eitthvað sem gæti gerst í raun og veru. ,,Miðað við að Berlín hafi náð í Gidsel á sínum tíma og svo eru sögusagnir um að Pytlick komi sumarið 2026 eða 2027 þá var þetta óhugsandi fyrir 3-4 árum síðan en miðað við uppbygginguna í Berlín og hvernig þeir eru að vinna þá get ég alveg ímyndað mér að þetta gæti gerst.” ,,Þeir virðast vera byrjaðir að geta borgað alvöru laun fyrir svona leikmenn. Það er greinilegt. Maður hafði áhyggjur af þeim eftir þjálfaraskiptin og eftir að Stefan Kretzschmar fór í september. Það var ótrúleg sprengja en þeir virðast heldur betur vera að spíta í lófana miðað við síðustu fréttir,” sagði Aðalsteinn meðal annars. Arnar Daði Arnarsson þáttastjórnandi Handkastsins velti því fyrir sér hvort Fuchse Berlín væru með þessu að reyna snúa athyglinni að jákæðvara viðhorfi gagnvart félaginu en september var stormasamur hjá félaginu eftir að þjálfari liðsins, Siewert var rekinn þrátt fyrir að hafa gert félagið að meisturum í Þýskalandi á síðasta tímabili, í fyrsta skipti í sögu félagsins. ,,Það var auðvitað allt í reyk þegar Siewert er látinn fara og Kretzschmar fer síðan í kjölfarið. Er Bob Hanning að reyna snúta athyglinni á einhvern jákvæðan hátt og sýna að þeir séu að reyna virkilega að styrkja liðið. Bob Hanning er auðvitað engum líkur og veit alveg hvað hann er að gera.” ,,Þeir eru þó allavegana að reyna þetta. Svona sterkur orðrómur fer ekkert í gang nema það séu einhverjar viðræður í gangi,” sagði Aðalsteinn sem var spurður í kjölfarið hvort hann sjái fyrir sér að Dika Mem vilji í raun og veru fara í hörkuna til Þýskalands? ,,Þessir leikmenn hafa ekki viljað fara til Þýskalands. Síðan 2012 hafa svona leikmenn valið að fara til Spánar, Ungverjalands eða Frakklands í stórliðin þar. Það yrði mikil breyting ef þú fengir einn af stóru leikmönnunum frá Frakklandi til Þýskalands. Það hefur ýmislegt gerst, kannski vill hann prófa þetta. Maður veit ekki hvaða metnað hann hefur. Kannski hefur hann fengið nóg af því að spila kannski fjóra alvöru leiki og svo leikina í Meistaradeildinni. Það er mesta áskorunin að vinna þýsku úrvalsdeildina hjá þessum leikmönnum fyrir utan Meistaradeildina.“ Aðalsteinn bætti við að Dika Mem væri á þeim stað að þetta Fuchse Berlín væri ekki eina liðið sem hefði áhuga á að fá hann og þetta væri því ekki eini möguleikinn hans ætli hann sér að yfigefa Barcelona sumarið 2027.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.