Sigvaldi Björn Guðjónsson (Ruben De La Rosa / NurPhoto via AFP)
Það vakti athygli margra er Snorri Steinn Guðjónsson tilkynnti lokahóp sinn fyrir Evrópumótið að sjá nafn Sigvalda Björns Guðjónssonar hvergi en Sigvaldi hefur farið á sjö stórmót í röð með íslenska landsliðinu og leikið á hæsta stigi leiksins undanfarin ár í Meistaradeildinni bæði með Kolstad og Kielce. Snorri Steinn ákvað að þessu sinni að velja Óðin Þór Ríkharðsson og Teit Örn Einarsson sem hægri hornamenn íslenska landsliðsins. Í lokahópi Snorra Steins er hinsvegar svili Sigvalda, Janus Daði Smárason leikmaður Pick Szeged og fyrrum samherji Sigvalda hjá Kolstad. Janus Daði viðurkennir að það sé leiðinlegt að góður vinur sinn sé ekki valinn í hópinn að þessu sinni. ,,Þetta er leiðinlegt. Hann hefur verið óheppinn með meiðsli og ýmislegt í gangi hjá honum. Þá er þetta því miður harður heimur sem við lifum í og hann þarf að bíta í það súra epli í þetta skiptið að vera skilinn eftir,” sagði Janus Daði sem viðurkennir að þessi ákvörðun hafi komið honum á óvart. ,,Ég held að það efist enginn um getu hans sem handboltamanns. Ég held að það hitti bara þannig á að við erum að elta einhver smáatriði hér og þar og þjálfarinn er með margar hugmyndir. Þegar maður er ekki í topp standi þá er stundum erfitt að velja þá fram yfir einhverja aðra sem eru í hörku standi,” sagði Janus Daði. En veit hann hvað svili sinn ætlar að gera í janúar í stað þess að spila á stórmóti? ,,Ég veit það ekki en pásan verður örugglega kærkomin en á sama tíma myndir þú aldrei velja pásuna. En oft er ekki mikið frí í þeim heimi sem við lifum í. Ég held að það sé líka mikil orka sem hægt er að sækja úr þessu og Sigvaldi límir örugglega mynd af Snorra upp á vegg í ræktinni í sumar og segir honum að halda kjafti næsta sumar,” sagði Janus Daði í léttum tón í lokin.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.