Gunnar Magnússon (Sævar Jónasson)
Gunnar Magnússon þjálfari Hauka í Olís-deild karla verður áfram í teymi Dags Sigurðssonar hjá Króatíu á Evrópumótinu sem framundan er í janúar. Þetta staðfesti hann í viðtali við Handkastið eftir sigur Hauka gegn HK í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins á föstudaginn í síðustu viku. Gunnar fékk yfir sig gagnrýni á heimsmeistaramótinu fyrr á þessu ári er fólk var ósátt eftir tap Íslands gegn Króatíu þar sem Dagur Sigurðsson skákaði Snorra Steini með 5-1 varnarleik króatíska landsliðsins. Í kjölfarið hófst umræða um mikilvægi Gunnars Magnússonar í undirbúningi króatíska landsliðsins en Gunnar var aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska landsliðsins í árabil með Guðmundi Þórði Guðmundssyni. Skrifaði Víðir Sigurðsson blaðamaður á Morgunblaðinu meðal annars um að Gunnar væri föðurlandssvikari og fullyrðingar um að Gunnar hafi afhent Króötum mikilvægar innanhússupplýsingar. Geir Sveinsson fyrrum landsliðsmaður og landsliðsþjálfari skrifaði í kjölfarið pistil á Vísi þar sem hann segir þær ásakanir vera út í hött og til skammar. ,,Ég hef verið að hjálpa honum í kringum tvö ár og held því áfram og ég hef gaman að því," sagði Gunnar Magnússon sem gerir ráð fyrir því hinsvegar að vinna undirbúningsvinnuna frá Íslandi og fari ekki ytra. ,,Ég hef farið á svo mörg stórmót, að ég hef gaman að því að vera heima í stofunni og vera sófa sérfræðingur heima og geta slakað aðeins á. Ég hef ekki ákveðið mig alveg en ég á ekki von á því að fara út,” sagði Gunni Magg í viðtal við Handkastið. Króatía gæti mætt Íslandi í milliriðli þriðja stórmótið í röð en Króatía er í riðli með Georgíu, Hollandi og Svíþjóð. Tvö efstu lið riðilsins fara í milliriðil og gætu þar mætt Íslandi komist Ísland upp úr sínum riðli.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.