FH-Haukar (J.L.Long)
Draumur margra handboltaáhugamanna lifir að sjá FH og Hauka mætast í bikarúrslitum Powerade bikarkeppninar sem fram fer í lok febrúar. Haukar tryggðu sér sæti í Final 4 með sigri á HK í 8 liða úrslitum meðan FH unnu Aftureldingu í miklum háspennuleik þar sem Garðar Ingi Sindrason tryggði FH sigur með flautumarki í leikslok. Arnar Daði spurði strákana í Handkastinu hvað þeirra drauma mótherjar væru fyrir Final 4 úrslitahelgina. Styrmir svaraði strax að hann vildi sjá FH og Hauka mæstast í undanúrslitum. ,,Ég vill bara fá þennan leik 100%, hvort sem það verði í undanúrslitum eða úrslitum og ég nenni ekki að taka einhvern séns á því að þau vinni bæði undanúrslitaleikina sína. Síðan vil ég sjá KA fara í úrslit því ég held það verði geðbiluð stemmning sem komi með þeim." Kristinn Björgúlfsson myndi vilja sjá Hafnarfjarðarliðin mætast í úrslitum frekar. ,,Ég treysti á því að það verði búið að kæla kúlurnar fyrir dráttinn og að það verði passað uppá að þau mætist ekki." Handboltaáhugamenn verða þó að bíða fram í febrúar til að sjá hvernig þetta raðast því það verður ekki dregið fyrr en stelpurnar verða búnar með sína leiki í 8 liða úrslitum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.