Bjarki Már Elísson (Sævar Jónasson)
Heilsan á Bjarka Má Elíssyni vinstri hornamanni íslenska landsliðsins er góð þrátt fyrir að hann hafi ekki æft með íslenska landsliðinu á fyrstu æfingum liðsins í undirbúningnum fyrir Evrópumótið. Framundan eru tveir æfingaleikir í París í Frakklandi um helgina áður en lokaundirbúningurinn fyrir EM hefst í næstu viku. ,,Staðan á mér er fín. Vonandi er ég bara orðinn góður og klár í bátana. Þetta var smá stífleiki í kálfa. Maður er orðinn 35 ára og hef aðeins verið að lenda í brasi með kálfann en vonandi er það búið og ég get tekið fullan þátt í mótinu,” sagði Bjarki Már í viðtali við Handkastið fyrir æfingu landsliðsins í Safamýrinni í gær. En veit hann hlutverk sitt í liðinu fyrir mótið sem framundan er? ,,Það kemur í ljós. Ég veit það hreinlega ekkert. Ég vill spila og ef ég er á bekknum þá reyni ég að hjálpa þar. Vonandi erum við að fara spila níu leiki, allavegana sjö þá fá allir fullt af mínútum. Það er leikið þétt og það þarf að rótera liðinu en síðan þarf maður að standa sig. Ef þú gerir það, þá færðu að spila meira.” ,,Ég er einn af reynslu mestu leikmönnunum í hópnum og auðvitað langar mér að spila, en ef ég geri það ekki, þá verð ég all-in á bekknum að peppa mannskapinn og reyna hjálpa liðinu og hrista upp í þessu,” sagði Bjarki Már meðal annars í viðtalinu sem hægt er að sjá í heild sinni hér að neðan.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.