Kenya Kasahara (Eyjólfur Garðarsson)
Handknattleiksdeild Harðar sendi í gærkvöldi frá sér tilkynningu á samfélagsmiðlum sínum þar sem félagið segir að íþróttirnar hafi tapað og enginn vilji vinna þegar haft er rangt við. Hörður tapaði gegn ÍBV 2 í 32-liða úrslitum Powerade-bikarsins í gærkvöldi og verður lokamínúturnar úr þeim leik lengi í minnum manna. Ekki fyrir fegurð íþróttarinnar heldur vegna skandals sem átti sér stað. Hægt er að lesa um málið hér og þá er einnig hægt að horfa á loka mínúturnar hér. Handkastið greindi einnig frá því að dómarar leiksina hafi þurft á lögreglufylgd að halda í Herjólf þar sem þeir fengu fylgd alla leið um borð í bátinn og fengu afdrep í læstum herbergi á meðan á siglingunni stóð. Færslu Harðar á Facebookar-síðu sinni í gær má lesa hér að neðan: Í kvöld töpuðu íþróttirnar. Það á enginn að vilja vinna þegar haft er rangt við. Fyrr í kvöld tapaði lið Harðar gegn ÍBV2 í bikarkeppni HSÍ. Leikurinn í kvöld var kl 19.30 á mánudagskvöldi þrátt fyrir ítrekaðar óskir Harðar um að spila fyrr svo ferðalagið heim yrði manneskjulegra. Liðið spilaði síðast á laugardaginn gegn ÍH og ferðaðist sunnudag og mánudag í þennan leik. Þökkum við leikmönnum og sjálfboðaliðum fyrir tímann sinn. Áður en leikurinn hófst gerði Hörður athugasemd við bæði dómara leiksins og framkvæmdastjóra HSÍ - Handknattleikssamband Íslands vegna aldurs aðila á ritaraborði. Ungum börnum er ekki endilega neinn greiði gerður með því að setja þau í svo vandasamt starf. Klukkustund fyrir leikinn var enginn mættur frá ÍBV á tæknifund. Hálftíma fyrir leik var skýrsla tilbúin frá ÍBV. Dómarar leiksins geta og munu staðfesta það. Okkar leikmenn áttu undir högg að sækja en voru með boltann í jöfnum leik undir lokinn. Þjálfari Harðar tekur leikhlé. Ungur ritari leiksins ýtir ekki á bjölluna fyrr en þónokkru seinna. Þegar bjallan glymur þó, um 5 sekúndum eftir að beðið er um leikhlé er Hörður enn með boltann. Þrátt fyrir þetta ákveða dómarar leiksins að dæma soknarbrot á Hörð. Þjálfari ÍBV horfir á þegar leikhlé er tekið. Hann biður þjálfara Harðar afsökunar eftir leikinn fyrir að hafa ekkert sagt. Núna er staðan sú að dómarar leiksins hljóta að horfa á upptökuna. Þeir sjá að ungur ritari á vegum ÍBV tók við spjaldinu löngu á undan áður en þeir dæmdu soknarbrot. Þeir sjá raunar að sóknar brotið var ekki brot. Þeir sjá að þjálfari ÍBV sá að leikhle var rétt tekið en kaus að gera ekkert og koma ungu barni á ritaraborði í vandræði. Dómari leiksins vildi ekki horfa á upptökuna til að passa að hlutirnir væru rétt gerðir. Hann sagðist ekki mega það. En spurningin sem við eigum frekar að spyrja að - mega mjög ung börn sjá um framkvæmd bikarleikja? Hver ætlar að spyrja þjálfara ÍBV afhverju hann leiðrétti ekki? Eru þetta sigrarnir sem við viljum? Að heimalið þurfi að breyta um aðila á ritaraborði þegar 20 sek eru eftir er óboðlegt. Að það sé engin gæsla, engin miðasala, engin sjoppa, enginn moppa, engin kynnir og fleira hjálpar ekki handboltanum. Það er von okkar að dómarar þessa leiks setji sig í spor Harðverja. Ef þeir fara eingöngu eftir geðshræringu sínni þá er ljóst að þeir munu setja í skýrslu sína allskonar hluti til að skyggja á afskaplega óheppilegar ákvarðanir í enda leiksins. Þeir verða að átta sig á að þeir, ásamt starfsmönnum leiksins, voru orsök óánægju þjálfara Harðar. HSÍ - við verðum að gera meiri kröfur en þetta á félögin. Hér í kvöld var lið dæmt úr bikarkeppninni. Við viljum leiðrétta það sem fram kemur hjá Handkastinu. Þjálfari Harðar, Pedro Nunes hótaði engum. Dómarar leiksins þurftu enga lögreglufylgd enda enginn að ógna þeim. Þeir gerðu sér hins vegar grein fyrir vitleysunni hjá sér strax og voru í afneitun og geðshræringu, því eins og áður segir þá voru þetta ansi afdrifarík mistök.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.