Ásgeir Snær Vignisson (Víkingur)
Eitt ljótasta brot sem Handkastið hefur séð í langan tíma á handboltavellinum hérlendis leit dagsins ljós í leik Víkings og Fjölnis í Grill66-deild karla á föstudagskvöldið. Sjáðu fólskulegt brot í Safamýrinni á föstudaginn. Í nýjasta þætti Handkastsins var rætt um brotið umrædda þar sem Stymmi klippari og Einar Ingi Hrafnsson gestur þáttarins sögðu sína skoðun á brotinu eftir að hafa séð myndskeið af því. ,,Ég hef ekki séð svona inn á handboltavellinum áður. Mér finnst þetta ótrúlegt sér í lagi því við fengum að sjá ótrúlegt brot hjá Fjölni í 1.umferðinni," sagði Stymmi klippari en dómarar leiksins virtust ekki hafa séð brotið. Ásgeir Snær hélt leik áfram og skoraði jöfnunarmark Víkings í leiknum skömmu síðar. Leikurinn endaði með jafntefli. ,,Ég þekki nú ekki þessa dómara persónulega og hef ekki séð mikið af leikjum hjá þeim en menn hafa rætt að það sé dass af ákvörðunarfælni hjá þeim. En að missa af þessu er auðvitað galið." ,,Þetta er líkamsárás. Þetta er flatur framhandleggur. Hvað gekk honum til? Var hann svona þreyttur eða?" velti Stymmi klippari fyrir sér áður en Einar Ingi var spurður út í brotið. ,,Þetta er mjög ljótt brot og í rauninni árás. Hann er heppinn að hafa ekki hamrað á nefið á honum. Ef hann hefði hamrað ofan á nefið á honum þá hefði hann brotið á honum nefið." ,,Ég held að Ásgeir Snær sé ekki að fara spila meira í september. Við þurfum að taka á svona brotum. Þetta á ekki að sjást," sagði Einar Ingi að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.