Ásgeir Snær Vignisson (Víkingur)
Aganefnd HSÍ hefur úrskurðað þá Ásgeir Snæ Vignisson leikmann Víkings í Grill66-deildinni og Braga Rúnar Axelsson starfsmann Harðar í bikarleik liðsins gegn ÍBV 2 í þriggja leikja bann. Mál þeirra tveggja voru tekin fyrir á fundi aganefndar HSÍ fyrr í dag. Þar með er ljóst að Ásgeir Snær missir af næstu þremur leikjum Víkings í Grill66-deildinni þar á meðal stórleiks Víkings gegn Gróttu í 4. umferð deildarinnar. Það sem vekur kannski mesta athygli í máli Ásgeirs Snæs er að dómarar leiksins dæmdu Ásgeir Snæ ekki brotlegan í umræddu broti sem átti sér stað undir lok leiks Víkings og Fjölnis í Grill66-deildinni síðasta föstudag en Handkastið greindi frá brotinu strax eftir leik. Hægt er að sjá myndskeið af brotinu hér. Brot hans kom hinsvegar inn á borð aganefndar frá málskotsnefnd HSÍ. Ásgeir Snær skoraði jöfnunarmark Víkings í sókninni á eftir brotið sem reyndist síðasta mark leiksins. Í samræmi við 1. gr. reglugerðar HSÍ um agamál var Víkingi veittur frestur til kl. 12.00 í dag í þeim tilgangi að skila greinargerð vegna málsins. Í greinargerðinni sem barst frá Víkingum var þess krafist að Ásgeir Snæ yrði ekki gerð refsing fyrir leikbrotið. Í greinargerð Víkings segir til að mynda: ,,Að umrætt brot hafi orðið fyrir slysni og ekki af ásetningi viðkomandi leikmanns." Bragi Rúnar Axelsson starfsmaður Harðar sem var einnig dæmdur í þriggja leikja bann eftir atvik í kringum lokamínútur og eftir að leik ÍBV 2 og Harðar lauk er sagður hafa með hegðun sinni undir lok leiks, komið fram með ódrengilegum hætti og falli brotið undir reglu 8:10 a). En í myndskeiði sem Handkastið hefur fengið sent eftir leik ÍBV 2 og Harðar sést til að mynda þegar Bragi Rúnar kastaði stól inn á leikvöllinn í átt að leikmönnum og stuðningsmönnum ÍBV 2. Þá sést einnig þegar Bragi Rúnar stjakar við Garðari Benedikti Sigurjónssyni formanni handknattleiksdeildar ÍBV en Garðar Benedikt lék umræddan leik.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.