Aron Rafn fann sig ekki í síðasta leik. (Eyjólfur Garðarsson)
Í nýjasta þætti Handkastsins var farið yfir leik KA og Hauka í 2.umferð Olís-deildarinnar sem fram fór á föstudagskvöldið. Þar unnu Haukar eins marks sigur 33-32 á Akureyri. Hjá Haukum byrjaði Aron Rafn Eðvarðsson í markinu en hann náði ekki að setja mark sitt á leikinn og náði ekki að verja eitt skot af þeim sextán sem hann fékk á sig. Haukar mæta ÍR í 3.umferð Olís-deildarinnar í kvöld klukkan 18:30. Einar Ingi Hrafnsson var gestur Handkastsins og hann veltir því fyrir sér fyrir hvern Aron Rafn er að spila og taka þá ákvörðun að hætta við að hætta við. ,,Hann byrjar leikinn og verandi búinn að æfa í rúmlega viku. Maður veltir fyrir sér að hann ákveður að hætta í vor, er það Gunni Magg sem er að þvinga hann í að koma aftur? Vill hann koma aftur?" ,,Hann virðist ekki vera í standi til að vera þarna og þarf að líta í eigin barm. Er hann að gera einhverjum greiða að vera þarna þangað til að þeir sækja einhvern annan eða er hann búinn að ákveða að vera þarna út tímabilið?" sagði Einar Ingi sem segir mikilvægt bæði fyrir Aron Rafn og Hauka að Aron verði fljótur að kveikja á sér. ,,Hann þarf heldur betur að kveikja á sér svo hann geti farið að hjálpa Haukum miðað við þessar fyrstu tvær umferðir." Nýjasta þátt Handkastsins er hægt að hlusta á hér að neðan.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.