Dagur Arnarsson ((ÍBV)
Dagur Arnarsson leikmaður ÍBV var að vonum óánægður eftir sex marka tap liðsins gegn FH í Kaplakrika í kvöld í 3.umferð Olís-deildarinnar. FH unnu leikinn 36-30 og voru yfir meira og minna allan leikinn. Dagur Arnarsson var í viðtali við Ingvar Örn Ákason í Sjónvarpi Símans strax að leik loknum en leikurinn var sýndur í opinni dagskrá. ,,Við erum langt á eftir þeim varnarlega í byrjun leiks og þeir keyrðu á lagið. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða,” sagði Dagur sem sagði liðið hafa mætt illa til leiks. ,,Við lendum 5-0 undir erum staðir og hægir sem er ekki nógu gott. Það er ekki hægt að koma ekki hingað í Kaplakrika þannig undirbúnir.” ,,Við þurfum að skoða leikinn frá A-Ö og reyna finna eitthvað jákvætt útúr þessu og byggja ofan á það. Við þurfum bara að halda áfram. Við unnum fyrstu tvo leikina og við höldum áfram brattir,” sagði Dagur en ÍBV mætir nýliðum Þórs í 4.umferðinni í næstu viku. ,,Við mætum vöskum Þórsurum í nsæta leik og þurfum að hafa fyrir því. Það verður ekkert gefið. við erum heimsmeistarar að gera hlutina mjög vel og á sama tíma rosalega illa á sama tíma. við þurfum að hugsa hvernig við komum inn í leikinn og bæta það,” sagði Dagur að lokum í viðtali við Ingvar Örn í Sjónvarpi Símans.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.