Stefán Árnason (Raggi Óla)
Stefán Árnason þjálfari Aftureldingar var alsæll eftir níu marka sigur sinna manna gegn KA á heimavelli í 3.umferð Olís-deildar karla í kvöld. Afturelding er með sigrinum með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leikina en liðið hefur unnið Hauka, HK og nú KA í upphafi móts. ,,Við komum vel inn í leikinn og náðum strax góðri vörn og bjuggum strax til góðan mun á milli liðanna. Ég var líka hrikalega ánægður með breiddina í liðinu. Við fengum Sveinur og Oscar inn í fyrri hálfleik og þeir komu með frábæra innkomu. Við gátum rúllað vel á liðinu í kvöld og ég er hrikalega ánægður með það," sagði Stefán í viðtali við Handkastið. Danski leikmaðurinn, Oscar Lykke sem liðið fékk til sín í sumar hefur komið vel inn í lið Aftureldingar. ,,Hann er enn einn góði leikmaðurinn í liðinu okkar. Hann hefur marga góða eiginleika. Það er mikil hætta á honum í spilinu og síðan er hann með góð skot. Hann gefur okkur ákveðna vídd. Hann er aðeins öðruvísi en Ágúst Ingi, Harri og Sveinur." ,,Það er gott að vera með fjölbreytilega leikmenn og hann kemur vel inn í hlutina sem við erum að gera," sagði Stefán sem heldur sér alveg niður á jörðinni þrátt fyrir góða byrjun á mótinu. ,,Við vissum að við værum með gott lið. Það eru bara þrír leikir búnir og nítján eftir. Það þýðir ekkert að fara fram úr sér. En við vissum að við gætum unnið fullt af leikjum ef við næðum að spila þann handbolta sem við erum að reyna leggja upp með. En mótið er bara rétt að byrja. Þetta er góð byrjun en það er lykilatriði að við höldum áfram og gerum allt sem við getum til að ná tveimur stigum í næsta leik," sagði Stefán að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.