Benedikt Gunnar var flottur í kvöld (Ruben De La Rosa / NurPhoto via AFP)
Það var nóg að gerast á Norðurlöndunum í kvöld en alls voru sex Íslendingalið að spila í Noregi og Svíþjóð en við byrjum í Noregi þar sem þrjú Íslendingalið tryggðu sér sæti í undanúrslit Norska bikarsins. Norsku meistararnir í Kolstad tryggðu sig í undanúrslitin með heimasigri á Nærbø, 25-19. Benedikt Gunnar Óskarsson var líklega maður leiksins í kvöld en þrátt fyrir aðeins tvö mörk úr fimm skotum þá bætti hann við heilum sjö stoðsendingum, Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvö mörk úr fjórum skotum, Arnór Snær Óskarsson skoraði ekki úr eina skotinu sínu og síðan fékk Sigurjón Guðmundsson stutt tækifæri í markinu en varði ekki neitt af þeim fjórum skotum sem hann fékk á sig. Drammen unnu einnig góðan heimasigur gegn Kristiansand, 32-28. Þar var Ísak Steinsson ágætur í marki heimamanna en hann varði níu skot af þeim þrjátíu og tveimur sem hann fékk á sig eða 28% markvarsla. Þriðja Íslendingaliðið sem tryggði sig í undanúrslitin var Elverum en þeir unnu góðan útisigur á Bækkelaget, 31-35. Tryggvi Þórisson var þó hvergi sjáanlegur í liði gestanna eins og í seinustu umferð í deildinni. Síðasta liðið inn í undanúrslitin var Runar en þeir unnu góðan útisigur á Bergen, 27-35. Þá skiptum við yfir til Svíþjóðar en þar fóru Arnar Birkir Hálfdánsson og félagar hans til Jönköping þar sem þeir mættu heimamönnum í Hallby. Úr varð hörkuleikur en á endanum unnu heimamenn nauman sigur 32-30. Arnar Birkir skoraði fimm mörk úr ellefu skotum og bætti við fjórum stoðsendingum. Í kvennadeildinni héldu Sävehof áfram góðri byrjun sinni en þær unnu Önnereds á útivelli, 22-27. Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sex mörk úr fjórtán skotum þar af tvö mörk úr tveimur vítum. Meistararnir í Skara rifu sig upp eftir hræðilegt tap í fyrstu umferðinni og unnu góðan sigur á Aranäs á útivelli, 25-31. Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði sex mörk úr tíu skotum og bætti við þremur stoðsendingum á meðan Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði ekkert en gaf tvær stoðsendingar. Úrslit kvöldsins: Noregur Kolstad 25-19 Nærbø Drammen 32-28 Kristiansand Bækkelaget 31-35 Elverum Bergen 27-35 Runar Svíþjóð Hallby 32-30 Amo Önnereds 22-27 Sävehof Aranäs 25-31 Skara
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.