Davíð Svansson (Peder Gjersøe)
Það kom skemmtilega á óvart að Davíð Hlíðdal Svansson var kominn í leikmannahóp Aftureldingar í síðustu umferð efstu deildar karla þegar Afturelding mætti ÍR í Skógarselinu. Einar Baldvin Baldvinsson markvörður Aftureldingar er að glíma við hnémeiðsli og stóð Sigurjón Bragi Atlason í markinu allan leikinn með glæsibrag. Davíð var honum til aðstoðar á varamannabekknum. Davíð lagði markmannsskóna á hilluna fyrir nokkrum árum en hefur verið að spila með Hvíta Riddaranum undanfarin ár, sem leikstjórnandi. ,,Þetta kom raun til einungis vegna meiðsla. Einar meiðist og á sama tíma er þriðji markmaður liðsins, Bergvin Snær Alexandersson enn að jafna sig eftir aðgerð. Næstu markmenn í klúbbnum eru bara full ungir. Svo þeir spurðu mig hvort ég gæti hjálpað til í nokkrum leikjum," sagði Davíð í samtali við Handkastið. Davíð spilaði nokkra leiki fyrir tveimur árum þegar Brynjar Vignir Sigurjónsson þáverandi markvörður Aftureldingar var að glíma við höfuðmeiðsl. Síðan þá hefur Davíð verið að stýra spilinu með Hvíta Riddaranum á miðjunni í 2.deildinni síðustu ár. ,,Ég náði tveimur æfingum fyrir síðasta leik. Það er alls ekki meiningin að vera eitthvað með. En ég er í stjórn hjá félaginu og geri það sem ég get til að hjálpa því. Hvort sem það er að lýsa, setja upp völlinn, safna auglýsingum eða spila," sagði Davíð sem vonast til að Einar Baldvin jafni sig á meiðslunum sem fyrst og snúi aftur í liðið. Davíð segist æfa eins mikið með Aftureldingu eins og hann getur. Afturelding mætir Íslands- og bikarmeisturum Fram í 5. umferð efstu deildar annað kvöld. ,,Aðal hlutverkið mitt er bara að styðja við Sigurjón, hann er mjög efnilegur markmaður og hefur mjög gott af mínútunum í deildinni. Hann er klárlega framtíðar markmaður hjá okkur í Aftureldingu," sagði Davíð að lokum. 5.umferðin í efstu deild karla: Fimmtudagur:
18:00 Þór - Stjarnan
18:15 KA - ÍR
18:30 Selfoss - ÍBV
19:00 Afturelding - Fram
19:15 FH - HK
19:30 Haukar - Valur
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.