Norðurlöndin: Úrslit kvöldsins
Raggi Óla)

Einar Bragi Aðalsteinsson (Raggi Óla)

Það voru þó nokkrir leikir spilaðir í Danmörku og Svíþjóð í kvöld en fimm Íslendingalið voru í eldlínunni.

Í Danmörku unnu TTH Holstebro góðan sigur á Grindsted, 32-24 eftir að hafa verið yfir í hálfleik, 17-11. Lærisveinar Arnórs Atlasonar voru með yfirhöndina frá upphafi til enda og sigurinn aldrei í vafa. Jóhannes Berg Andrason hafði frekar hægt um sig í kvöld en hann skoraði aðeins eitt mark úr einu skoti og gaf eina stoðsendingu að auki.

Í efstu deild kvenna í Svíþjóð töpuðu Kristianstad með aðeins einu marki á útivelli gegn VästeråsIrsta, 25-24. Berta Rut Harðardóttir skoraði eitt mark úr tveimur skotum fyrir gestina.

Karlamegin voru einnig leikir en þar voru þrjú Íslendingalið að spila. Kristianstad hefndu fyrir kvennaliðið ef svo má segja og unnu mjög svo öruggan sigur á VästeråsIrsta á útivelli, 25-35. Einar Bragi Aðalsteinsson var frábær í liði gestanna en hann skoraði sjö mörk úr tólf skotum, bætti við einni stoðsendingu og lét einnig finna vel fyrir sér með tveimur brottvísunum.

Karlskrona unnu góðan heimasigur á OV Helsingborg, 34-28 en Arnór Viðarsson bætti upp fyrir rauða spjaldið í seinasta leik og átti flottan leik hjá heimamönnum en hann skoraði fimm mörk úr sex skotum.

Að lokum mættu Sävehof í heimsókn til Malmö og því miður lutu þeir í lægra haldi fyrir heimamönnum sem hafa byrjað tímabilið gífurlega vel og unnið alla fimm leiki sína í deildinni, lokatölur 37-32 fyrir Malmö. Birgir Steinn Jónsson átti erfitt uppdráttar hvað varðar markaskorun í kvöld en hann skoraði eitt mark úr þremur skotum og bætti við fjórum stoðsendingum.

Úrslit dagsins:

Danmörk

TTH Holstebro 32-24 Grindsted

Svíþjóð

VästeråsIrsta 25-24 Kristianstad

Karlskrona 34-28 OV Helsingborg

HK Malmö 37-32 Sävehof

VästeråsIrsta 25-35 Kristianstad

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top