Magnús Öder Einarsson (Kristinn Steinn Traustason)
Fyrirliði Fram á síðustu leiktíð, Magnús Öder Einarsson gekkst undir aðgerð á hné í vikunni og leikur ekkert með Fram á næstunni. Þetta staðfesti Einar Jónsson þjálfari Fram í samtali við Handkastið. Magnús Öder var ekki í leikmannahópi Fram í 5.umferð efstu deildar karla í gærkvöldi gegn Aftureldingu er liðið tapaði með sex mörkum 35-29. Ástæðan er einföld, Magnús fór í aðgerð á hné á miðvikudaginn og verður ekkert með Fram fyrr en í fyrsta lagi í febrúar ef allt gengur að óskum að sögn Einars Jónssonar þjálfara Fram. Þetta er annar leikmaður Fram sem verður ekki meira með liðinu á næstu mánuðum því Marel Baldvinsson sleit krossband í síðasta mánuði. Þá er Rúnar Kárason að glíma við eymsli í kálfa en vonir standa til að hann geti leikið með Fram á næstunni. Stutt er í Evrópuævintýri Fram hefjist en fyrsti leikur Fram í Evrópudeildinni verður þriðjudagskvöldið 14.október í Úlfarsárdalnum þegar Porto kemur í heimsókn.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.