Birgir Már Birgisson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Birgir Már Birgisson hefur ekki leikið með FH í tveimur síðustu leikjum liðsins í efstu deild karla að undanförnu. FH hefur tapað þeim báðum gegn Stjörnunni og nú síðast í gærkvöldi gegn HK. Birgir Már sagði í samtali við Handkastið að óvissa ríki um hversu alvarleg meiðslin væru og hvenær hann myndi snúa aftur á völlinn. ,,Ég er búinn að vera tæpur í mjöðminni síðan eftir ÍBV leikinn í 3.umferðinni og við töldum það skynsamlegast að ég myndi ekki spila gegn Stjörnunni eftir að hafa prófað mig áfram í upphitun fyrir þann leik." ,,Eins og staðan er, er óvissa hvenær ég kem aftur. Ég ætlaði mér að vera orðinn klár fyrir leikinn í gær gegn HK en það gekk ekki upp. Það kemur vonandi endanlega niðurtaða eftir skoðun um eða eftir helgina,” sagði Birgir Már í samtali við Handkastið. FH heimsækir Gróttu i 16-liða úrslitum bikarkeppninnar á mánudagskvöldið. Þá fær FH nýliða Þórs í heimsókn í 6.umferð efstu deildar karla á fimmtudaginn í næstu viku. FH er í 9.sæti deildarinnar með fjögur stig að loknum fimm umferðum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.