Hafþór Vignisson - Oddur Grétarsson (Skapti Hallgrímsson / Akureyri.net)
Nýliðar Þórs og Stjarnan skildu jöfn í 5.umferð efstu deildar karla í gærkvöldi í Íþróttahöllinni á Akureyri, 34-34 eftir hörkuleik þar sem mikið var skorað. Í nýjasta þætti Handkastsins fóru þeir Stymmi klippari, Ásgeir Gunnarsson og Davíð Már Kristinsson yfir alla sex leikina í 5.umferðinni. Þar spurði Stymmi klippari strákana hvort Stjarnan séu sáttir að fara norður og sækja eitt stig með gífurlega laskað lið. ,,Ég held að himinn og jörð sé ekkert að fara þó svo að Stjarnan hafi gert jafntefli fyrir norðan gegn Þór, með laskað lið á erfiðum útivelli." ,,Ég held að þetta hafi verið fín úrslit fyrir bæði lið. Stigasöfnun Þórs fer aðallega fram á heimavelli. Ég held að þeir muni ekki vinna marga leiki á útivelli í vetur. Þessi stigasöfnun verður að fara fram á þeirra heimavelli," sagði Davíð Már Kristinsson annar af gestum þáttarins. Ásgeir Gunnarsson benti á að miklar sviptingar hafi verið á lokakaflanum og á sama tíma þótti honum gaman að sjá þetta Þórslið spila. ,,Ég held að þegar bæði lið horfa aftur til baka þá verða þau bæði þokkalega sátt. Þór var komið fjórum mörkum yfir þegar innan við tíu mínútur voru eftir. Ég hef nú ekki séð marga leiki hjá Þór, það er gaman að sjá þessa leikmenn aftur. Það er langt síðan maður sá Hafþór Vignisson, Þórð Tandra og Brynjar Hólm. Það er gott að sjá þá aftur," sagði Ásgeir Gunnarsson.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.