Ólafur Rafn Gíslason ((Egill Bjarni Friðjónsson)
Heil umferð fór fram í efstu deild karla á fimmtudagskvöldið þegar 5.umferðin fór fram. Á Akureyri fóru fram tveir leikir nánast á sama tíma þar sem mikið var skorað í báðum leikjum. Þór og Stjarnan gerðu jafntefli 34-34 en nánast á sama tíma mættust KA og ÍR. KA var 22-18 yfir í hálfleik og leikurinn endaði með 41-36 sigri KA. Í nýjasta þætti Handkastsins var farið yfir leikinn og stöðu liðanna í deildinni eftir fimm umferðir. ,,Þetta eru hvorki meira né minna en 77 mörk,” sagði Stymmi klippari án þess að hika í útreikningnunum. ,,Þetta er alltof mikið. Það var mikið skorað í öllum leikjunum en í þessum leik, 41-36,” bætti Ásgeir Gunnarsson einn af gestum þáttarins við áður en Stymmi klippari tók aftur til máls. ,,Á sama tíma átti Ólafur Rafn Gíslason markvörður ÍR sennilega sinn skásta leik í vetur með 15 varða bolta. Samt nær hann bara 28% markvörslu, af því hann fær á sig 53 skot í leiknum.“ Davíð Már Kristinsson annar af gestum þáttarins segir þetta vera galnar tölur. ,,ÍR-liðið bíður upp á þetta og þeir keyra alveg linnulaust í bakið á KA í leiknum og stjórna svolítið hraðanum.” Stymmi benti þó á að ÍR virðast ekki ráða við þennan hraða. ÍR er á botni efstu deildar með eitt stig að loknum fimm umferðum á meðan KA er með sex stig í 4.sæti deildarinnar. ,,KA svarar með krók á móti bragði og Andri Snær er að búa til helvíti skemmtilegan hóp fyrir norðan. Maður sér að það er kominn andi í þá. Andri hefur náð að búa til þvílíkan “Deyja fyrir klúbbinn”, nei fyrigefðu…” Umræðan um leik KA og ÍR hefst eftir rúmlega átta mínútna þátt.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.