Þórður Tandri Ágústsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Nýliðar Þórs og Stjörnunnar gerðu jafntefli 34-34 í 5.umferð efstu deildar karla á fimmtudagskvöldið fyrir norðan. Mikið var skorað í leiknum og mikil spenna var á loka mínútum leiksins þar sem liðin skiptust á að vera með forskotið. Í nýjasta þætti Handkastsins var rætt um lokasóknir liðanna en í jafnri stöðu þegar um mínúta var eftir af leiknum tók Stjarnan leikhlé. Liðið hafði verið í 7 á 6 seinni part seinni hálfleiks og hélt því áfram eftir leikhléið. Það fór hinsvegar eitthvað framhjá ungum og efnilegum markverði Stjörnunnar, Baldri Inga Péturssyni sem var mættur í rammann hjá Stjörnunni þrátt fyrir að Stjarnan væri með sjö útileikmenn í sókn. Varamannabekkur Þórs tók eftir því, dómararnir dæmdu boltann af Stjörnunni og Baldur Ingi fékk tvær mínútur. ,,Baldur Ingi Pétursson kom með frábæra innkomu inn í leikinn og kom Stjörnunni aftur inn í þennan leik, eftir að Stjarnan lenti fjórum mörkum undir og var hluti af því 6-0 áhlaupi sem Stjarnan tók, hann stóð í markinu á meðan Stjarnan var í sókn með sjö útileikmenn og Stjarnan missir boltann.” ,,Þórsarar fara því í lokasókn sína manni fleiri. Ég verð eiginlega að rifja upp orð Loga Geirssonar, stórvinar þáttarins í Seinni bylgjunni á sínum tíma. Eru menn ekkert að æfa lokasóknirnar? Þetta var ein slakasta lokasókn sem ég hef séð á ævinni. Það var eins og þeir væru að mæta inná handboltavöll 15.júní og voru að byrja að kasta og grípa." ,,Verðum við ekki að gefa Þórsurum það að þeir eru í efstu deild í fyrsta skipti eftir langan tíma. Þeir hafa sennilega ekki oft lent í þessum aðstæðum. Ég myndi halda að það væri stigsmunur að lenda í þessu þarna eða í næst efstu deild. En ég veit ekki, að æfa lokasóknina? Mögulega,” sagði Ásgeir Gunnarsson annar af gestum Handkastsins í síðasta þætti. Hægt er að hlusta á umræðuna um leik Þórs og Stjörnunnar í nýjasta þætti Handkastsins sem hefst í upphafi þáttarins.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.