Baldur Fritz Bjarnason (Egill Bjarni Friðjónsson)
Heil umferð fór fram í efstu deild karla í gærkvöldi þegar 5.umferðin fór fram. Á Akureyri vann KA fimm marka sigur á lánlausum ÍR-ingum 41-36 en ÍR-ingar eru enn í leit af sínum fyrsta sigri á tímabilinu. Baldur Fritz Bjarnason er og verður aðal leikmaður ÍR í sóknarleik liðsins líkt og á síðasta tímabili þar sem hann endaði sem lang markahæsti leikmaður efstu deildar. Baldur er nú markahæstur ásamt Bjarna Ófeigi Valdimarssyni en Baldur er á sama tíma einnig með flestu tapaða boltanna í deildinni og ofarlega á lista yfir leikmenn sem hafa skapað flestu færin fyrir liðsfélaga sína. Rætt var um Baldur Fritz í nýjasta þætti Handkastsins og ummæli sem hann hafði eftir sér í viðtali fyrir tímabilið þar sem hann sagðist ætla út í atvinnumennsku eftir tímabilið. ,,Ef við ræðum aðeins aðal leikmanninn í liðinu, son þjálfarans. Baldur Fritz Bjarnason. Það kom athyglisverður póstur inn á Youtube síðuna þar sem Ponzan og félagar voru að halda uppi stuðinu. Þar sem sagt var að Baldur væri með 25 tapaða bolta og undir 40% skotnýtingu í vetur ef vítin eru tekin út,” sagði Stymmi klippari. Baldur var markahæstur ÍR-inga sem fyrr í tapleiknum gegn KA með níu mörk úr 14 skotum en þar af sex mörk úr sex vítaskotum. Hann skoraði því þrjú mörk úr átta skotum í opnum leik. ,,Mér fannst Baldur blómstra í seinni hálfleiknum gegn Aftureldingu þar sem hann fór í það að vera algjör leikstjórnandi. Maður veltir fyrir sér, þarf hann að reyna að breyta sínum leik aðeins og reyna spila liðsfélagana uppi og ekki vera puðra 20 skotum á markið í leik.” Þá tók Davíð Már Kristinsson annar af gestum Handkastsins til máls sem var gáttaður yfir viðtali sem Baldur fór í, fyrir tímabilið. ,,Það sem ég skil ekki alveg er að fyrir tímabilið, þá segir hann í viðtali og gefur það út að hann ætlar sér í atvinnumennsku eftir tímabilið. Hann er 18 ára. Blær Hinriksson fór í þýsku úrvalsdeildina 24 ára.” Stymmi klippari tók þá undir og sagðist muna eftir því hvernig hann var, spólgraður 18 ára að aldri og hafi ætlað sér ótrúlegustu hluti. ,,Ég held að Baldur sé engin undantekning þar og hann lítur á sig sem tilbúinn í að fara í atvinnumennsku. En maður veltir fyrir sér hvort hann ætti frekar að taka eitt skref í topplið á Íslandi líkt og Dagur Árni Heimisson gerði og fá að spila þar sem hann er ekki endilega aðal aðal en kannski bestur vinur aðal. Ef hann fer út eftir tímabilið 18 ára gamall, þá verður hann 12-13 maður á skýrslu og þar færðu engan tíma til að vinna í veikleikanum þínum." Umræðan um leik KA og ÍR og Baldur Fritz hefst eftir tæplega níu mínútna þátt.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.