Hafþór Vignisson - Oddur Gretarsson (Skapti Hallgrímsson / Akureyri.net)
Nýliðar Þórs halda áfram að safna stigum í Olís-deild karla og það gerðu þeir í síðustu umferð í Kaplakrikanum þegar liðið heimsótti deildarmeistara FH. Það gerðu Þórsarar án síns lykilsmanns, Hafþórs Vignissonar sem hefur ekkert leikið með liðinu í síðustu tveimur leikjum eftir að hann meiddist tvívegis á ökkla í leik gegn Stjörnunni í síðustu umferð. Rætt var um leik FH og Þórs í nýjasta þætti Handkastsins. ,,Það er mikið högg fyrir Þórsarana að missa Hafþór út en aðal sögulínan í þessum leik finnst mér vera síðustu 10-15 mínúturnar þegar Oddur fer á miðjuna og Kári kemur inn á línuna. Þeirra dúó skilar þessu jafntefli. Þeir voru frábærir báðir tveir," sagði Einar Ingi Hrafnsson sem var gestur í nýjasta þætti Handkastsins. ,,FH-ingar voru sjálfum sér verstir, þeir fá á sig vitlausa skiptingu og verða tveimur færri. Staðan er 33-30 fyrir FH þegar fimm mínútur eru eftir,” bætti Stymmi klippari við. En Kári Kristján Kristjánsson skoraði 29., 30. og 33. mark Þórs í leiknum sem komust yfir í stöðunni 33-34 en það voru FH-ingar sem jöfnuðu undir blálok leiksins. Alls skoraði Kári fimm mörk í leiknum. Oddur Gretarsson skoraði níu mörk og gaf sjö stoðsendingar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.