Benedikt Gunnar Óskarsson (Ruben De La Rosa / NurPhoto via AFP)
Undanúrslitin í norska bikarnum fóru fram í kvöld og þrjú Íslendingalið áttu einnig leik í dönsku úrvalsdeildinni. Við byrjum á norska bikarnum en þar fór fram algjör stórleikur þegar tvö bestu lið landsins, meistararnir í Kolstad mættu Elverum á heimavelli Elverum. Leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi en að lokum voru það gestirnir sem reyndust sterkari og unnu góðan sigur, 27-30 og eru því komnir í bikarúrslit. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði tvö mörk úr þremur skotum og Sigurjón Guðmundsson sat allan tímann á varamannabekknum en Sigvaldi Björn Guðjónsson var ekki með vegna meiðsla. Hjá heimamönnum skoraði Tryggvi Þórisson tvö mörk úr þremur skotum. Í hinum undanúrslitaleiknum voru það Runar og Drammen sem mættust á heimavelli Runar. Því miður fyrir Ísak Steinsson og liðsfélaga hans í Drammen áttu þeir erfitt uppdráttar í kvöld og voru allan leikinn að elta og fór svo að Runar unnu nokkuð öruggan sigur, 38-30. Ísak stóð í marki Drammen mest allan tíma leiksins og varði níu skot af þeim þrjátíu og níu sem hann fékk á sig eða 23% markvarsla. Í Danmörku héldu meistararnir í Álaborg sigurgöngu sinni áfram en þeir fóru illa með Íslendingaliðið Ribe-Esbjerg, lokatölurnar í Álaborg voru 39-26. Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk úr sjö skotum og gaf eina stoðsendingu á meðan Ágúst Elí Björgvinsson var ekki í leikmannahópi Ribe-Esbjerg. Arnór Atlason og lærisveinar hans í TTH Holstebro unnu flottan sigur á grönnum sínum í Mors-Thy fyrir framan fulla höll en Jóhannes Berg Andrason skoraði tvö mörk úr þremur skotum og gaf tvær stoðsendingar fyrir heimamenn sem unnu að lokum 41-33 í miklum markaleik. Að lokum fengu Ringsted mikinn skell þegar þeir mættu GOG á útivelli, lokatölur 36-23 fyrir GOG. Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði sex mörk úr ellefu skotum þar af tvö mörk úr tveimur vítum en Ísak Gústafsson komst ekki á blað fyrir gestina. Úrslit kvöldsins: Elverum 27-30 Kolstad Runar 38-30 Drammen Aalborg 39-26 Ribe-Esbjerg TTH Holstebro 41-33 Mors-Thy GOG 36-23 Ringsted

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.