Einar Baldvin Baldvinsson (Kristinn Steinn Traustason)
Topplið Olís-deildar karla, Afturelding fer norður á Akureyri í kvöld og mætir þar nýliðum Þórs sem eru í 10.sæti deildarinnar í 10.umferð Olís-deildarinnar. Afturelding vann góðan tveggja marka endurkomusigur á FH á heimavelli í síðustu umferð 25-23 en þar sneri markvörður liðsins, Einar Baldvin Baldvinsson aftur til baka eftir meiðsli síðustu vikur. Farið var yfir frammistöðu Aftureldingar í leiknum þar sem varnarleik liðsins var hrósað og innkomu Einars Baldvins í Handboltahöllinni sem sýnd er öll mánudagskvöld í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans. ,,Þessi leikur vinnst á góðri vörn og síðan hrekkur Einar Baldvin í gang. Það var ánægjulegt að sjá hann. Hann var fínn í fyrri hálfleik en síðan hrekkur hann alveg í gang í seinni hálfleik og þá er bæði vörnin og markvarslan að kikka inn saman. Það var stórpartur af því að Afturelding náði að vinna þennan leik,” sagði Rakel Dögg Bragadóttir meðal annars. Umfjöllun Handboltahallarinnar um varnarleik Aftureldingar og frammistöðu Einars Baldvins má sjá hér að neðan. Tveir leikir fara fram í Olís-deild karla í kvöld. Í Eyjum mætast ÍBV og Fram klukkan 18:30 og á Akureyri mætast Þór og Afturelding klukkan 19:00.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.