Brynjar Hólm Grétarsson - Oddur Gretarsson - Þór (Egill Bjarni Friðjónsson)
Frammistöðu Brynjars Hólms Grétarssonar leikmanns Þórs hefur vakið verðskuldaða athygli í vetur en hann hefur verið potturinn og pannan bæði í varnar- og sóknarleik nýliða Þórs í Olís-deildinni. Þór er í 10.sæti Olís-deildarinnar með sex stig, stigi meira en Selfoss sem eru í 11.sætinu og stigi á eftir Stjörnunni sem eru í 9.sæti. Þór fær topplið Aftureldingar í heimsókn í Höllina á Akureyri í kvöld. Hörður Magnússon spurði gestina sína í Handboltahöllinni í Sjónvarpi Símans á mánudagskvöldið hvort Brynjar Hólm væri sá leikmaður sem hefur tekið mestu framfarir í deildinni? ,,Það er ekki nokkur spurning og þá sérstaklega sóknarlega. Hann er að skora fullt af flottum mörkum,” sagði Ásbjörn Friðriksson sem var gestur í Handboltahöllinni. Rakel Dögg Bragadóttir tók undir þau orð og segist hafa verið hrifin af spilamennsku Brynjars á tímabilinu. ,,Það er líka ótrúlegt að hann hefur ekki verið þekktur fyrir sinn sóknarleik og verið þekktari fyrir varnarleikinn síðustu ár. Hann er leik eftir leik með frábæra frammistöðu sóknarlega. Í seinni hálfleik skorar hann 3-4 mörk í röð fyrir Þór og er stórpartur af því að liðið náði að minnka mun Hauka.”

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.