Hafþór Vignisson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Einn stærsti leikur tímabilsins í Olís-deild karla fer fram í KA-heimilinu á fimmtudagskvöldið þegar Akureyrarliðin, KA og Þór eigast við í 11.umferð Olís-deildar karla. Hefst leikurinn klukkan 19:30. Gera má ráð fyrir tæplega 1000 áhorfendum í KA-heimilinu á fimmtudaginn en gestirnir í Þór fengu 300 miða til sölu hjá sér og samkvæmt heimildum Handkastsins fóru þeir miðar fljótt út. Hafa spjallhópar fyrir norðan á samfélagsmiðlum logað síðustu daga þar sem Þórsarar sem ekki fengu miða hafa reynt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fá miða. Enn eru þónokkrir miðar eftir fyrir stuðningsmenn KA en þar gera menn ráð fyrir því að síðustu miðarnir á leikinn verða seldir í dag eða á morgun en miðasalan fer einungis fram á ákveðnum tímum í KA-heimilinu. Liðin mættust síðast tímabilið 2020/2021, þann 27.maí þegar heimsfaraldur ríkti í heiminum og voru þeir áhorfendur sem fengu að vera á vellinum með grímur. Þá var fjöldatakmörkun í gildi og því var KA-heimilið ekki fullt. Það verður því allt annað upp á teningnum á fimmtudaginn en síðasti leikur liðanna fór jafntefli 19-19 það tímabil. Þór féll þetta tímabil niður í Grill66-deildina en komust upp í Olís-deildina á nýjan leik á síðasta tímabili. Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur KA-manna í leiknum með fimm mörk á meðan Karolis Stropus var markahæstur í liði Þórs með fimm mörk einnig. Leikurinn verður í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans og það eru algjör forréttindi fyrir íslensku þjóðina að fá annan eins leik sýndan í opinni dagskrá í sjónvarpi allra landsmanna.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.