Viktor dró vagninn fyrir Fram í dag (Fram)
Fram tók á móti HC Kriens-Luzern í Evrópudeildinni í kvöld. Sömu lið höfðu mæst ytra í síðustu viku þar sem Framarar töpuðu með 15 marka mun 40-25. Framarar sýndu sitt rétta andlit í kvöld og stóðu vel í svissneska liðinu. Staðan í hálfleik var 16-19 fyrir gestunum og lokatölur í kvöld voru 31-35 tap Fram. Viktor Sigurðsson sem gekk nýverið til liðs við Fram frá Val fór mikinn í leik liðsins og var markahæstur með 8 mörk. Rúnar Kárason, Dánjál Ragnarsson og Ívar Logi Styrmisson skoruðu 5 mörk hver, Theodór Sigurðsson og Dagur Fannar Möller skoruðu 2 mörk hvor og Kjartan Þór Júlíusson, Arnar Magnússon, Erlendur Guðmundsson og Max Emil Stenlund skoruðu 1 mark hver. Arnór Máni Daðason varði 4 bolta og Breki Hrafn Árnason varði 11 bolta. Þetta var síðasti heimaleikur Fram í keppninni en liðið á eftir að mæta bæði Porto og Elverum á útivelli.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.