Kristófer Ísak Bárðarson ((ÍBV Handbolti)
Vinstri skyttan, Kristófer Ísak Bárðarson leikmaður ÍBV í Olís-deild karla hefur framlengt samningi sínum við félagið. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum fyrr í dag. Kristófer Ísak framlengir samningi sínum við ÍBV til ársins 2028 en hann gekk í raðir félagsins frá HK fyrir síðasta tímabil. Hann er því á sínu öðru tímabili með ÍBV. ,,Kristófer er einn af okkar efnilegu leikmönnum innan félagsins og hefur sýnt frábæran karakter, vinnusemi og stöðuga framför. Við hlökkum til að sjá hann halda áfram að þróast næstu árin,” segir í tilkynningunni frá ÍBV. Kristófer Ísak hefur skorað tíu mörk í fyrstu átta leikjum sínum með ÍBV í Olís-deildinni en ÍBV mætir Val í lokaleik 11.umferðarinnar á laugardaginn næstkomandi.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.