Ómar Darri Sigurgeirsson (Sævar Jónasson)
Ómar Darri Sigurgeirsson stórskytta í liði FH í Olís-deild karla skoraði átta mörk í sannfærandi sigri FH gegn KA á heimavelli í 10.umferð Olís-deildar karla í síðustu umferð. FH mætir ÍR í fyrsta leik 11.umferðar deildarinnar í kvöld í Skógarselinu. Frammistaða Ómars Darra sem er fæddur árið 2008 og er að leika sitt fyrsta alvöru tímabil í Olís-deildinni var tekin fyrir í Handboltahöllinni í Sjónvarpi Símans á mánudagskvöldið. Þar voru sýnd frábær mörk Ómars í leiknum sem átti stórleik. ,,Hann hefur tekið risaskref. Maður hefur séð og vitað af þessum leikmanni í yngri flokkum síðustu ár, tveggja metra strákur að hann væri að koma upp en að hann skuli koma af svona miklum krafti inn í Olís-deildina og inn í FH-liðið, maður bjóst ekki við því,” sagði Einar Ingi Hrafnsson í Handboltahöllinni. Þar benti hann á að Einar Örn Sindrason hafi meiðst snemma á tímabilinu og Ómar Darri hafi neyðst til að stíga upp. Ómar Darri var í hóp hjá FH-liðinu á síðustu leiktíð án þess þó að vera í hlutverki en hlutverkið hefur aukist til muna á þessu tímabili. ,,Hans haust og hans fyrstu tíu leikir í Olís-deildinni hafa verið stórkostlegir,” bætti Einar Ingi við. Umræðuna og mörkin frá Ómari Darra má sjá hér að neðan.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.