Einar Ingi Hrafnsson Ingvar Örn Ákason (Sævar Jónsson
Það voru ótrúlegar aðstæðurnar sem leikmenn og þjálfarar Aftureldingar og Hk þurftu að spila við í Mosfellsbænum í vikunni þegar Afturelding vann HK í 13.umferð Olís-deildar karla. Stuttu fyrir leik varð allt netlaust í Myntkaup-höllinni eftir að ljósleiðarastrengur fyrir utan húsið slitnaði. Leikurinn var því hvorki sýndur á Handboltapassanum né tekinn upp í gegnum Spiideo og þá var engin virk leikklukka í höllinni heldur var flettispjald notað á ritaraborðinu og skeiðklukka. Einar Ingi Hrafnsson framkvæmdastjóri Aftureldingar var í nýjasta þætti Handkastsins þar sem rætt var um þessar aðstæður en Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari HK vandaði Aftureldingu ekki kveðjurnar í viðtali við Handkastið eftir leik. ,,Skolphreinsun Ásgeirs hefur ekkert með þetta að gera. Við verðum ljósleiðara lausir á Varmá og getum ekkert gert í því þegar ljósleiðarinn svíkur okkur þá hrynur allt húsið. Það er netlaust í öllu húsinu á þessum tíma. Þetta gerist rétt fyrir leikinn, um korter í sjö,” sagði Einar Ingi í Handkastinu þegar hann var beðinn um að útskýra hvað hafi komið uppá. ,,Klukkan er í gangi þegar menn eru að byrja upphitun og þá er allt í standi. Ég skil alveg Halldór Jóhann, þetta er til skammar að þetta geti gerst en í grunninn gátum við ekkert gert í þessu. En það sem er líka leiðinlegt er að Spiideo dettur út í leiðinni og því eru myndir og myndskeið úr leiknum ófáanlegt og það er verra fyrir Oscar Lykke og Jóhann Birgi sem vildu eflaust búa til einhver myndbönd af sér eftir þennan leik.” Arnar Daði Arnarsson þáttastjórnandi Handkastsins velti fyrir sér hvort HSÍ þyrfti að vera með skýrari viðmið varðandi hvort leikir á efsta stigi gætu verið leiknir við þessar aðstæður og bendir á að leikir í knattspyrnu hafa verið frestaðir vegna lélegs ástands vallarins og slíkt.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.