Benedikt Gunnar Óskarsson (Ruben De La Rosa / NurPhoto via AFP)
Sex Íslendingalið áttu leik í dag í Svíþjóð, Danmörku og Noregi í dag en við byrjum yfirferðina í Svíþjóð þar sem fram fór Íslendingaslagur þegar Amo mætti í heimsókn til Kristianstad. Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik komu heimamenn grimmir út í síðari hálfleikinn og eftir tólf mínútna leik náðu þeir sex marka forskoti sem reyndist of mikill munur fyrir gestina að brúa. Á endanum unnu Kristianstad flottan sigur, 38-29. Einar Bragi Aðalsteinsson var ekki í leikmannahópi Kristianstad að þessu sinni. Í liði gestanna skoraði Arnar Birkir Hálfdánsson fimm mörk úr tíu skotum, gaf tvær stoðsendingar og fékk eina brottvísun. Í Danmörku tóku lærisveinar Arnórs Atlasonar í TTH Holstebro á móti GOG í hörkuleik en þar reyndust gestirnir sterkari og unnu frábæran útisigur, 29-35. Jóhannes Berg Andrason átti fínan leik fyrir heimamenn en hann skoraði fimm mörk úr níu skotum. Í Noregi heldur barátta Elverum og Kolstad um efsta sæti deildarinnar áfram en bæði lið unnu sína leiki í dag og Elverum heldur því eins stigs forystu á Kolstad en Kolstad eiga þó leik inni. Elverum unnu tíu marka sigur á heimavelli gegn Kristiansand, 43-33 eftir að hafa verið nokkuð óvænt einu marki undir í hálfleik, 18-19. Tryggvi Þórisson skoraði ekki mark að þessu sinni en hann klikkaði eina skotinu sínu í leiknum. Kolstad unnu góðan heimasigur á Runar, 37-31 en Sigvaldi Björn Guðjónsson var ekki með að sinni á meðan Benedikt Gunnar Óskarsson átti fínan leik en hann skoraði fjögur mörk úr fimm skotum og gaf fimm stoðsendingar að auki. Að lokum töpuðu Arendal á útivelli fyrir Sandefjord, 30-25 en Dagur Gautason skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum fyrir gestina. Phil Döhler fyrrum markmaður FH reyndist Arendal erfiður en hann var með 30% markvörslu fyrir heimamenn. Úrslit dagsins: Kristianstad 38-29 Amo TTH Holstebro 29-35 GOG Elverum 43-33 Kristiansand Kolstad 37-31 Runar Sandefjord 30-25 Arendal

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.